Þriðjudagur 17. júní 2014

Vefþjóðviljinn 168. tbl. 18. árg.

Við Sigríðarstaðavatn. Þrátt fyrir allt horfir nú betur um sjálfstæði Íslands en nokkur undanfarin ár.
Við Sigríðarstaðavatn. Þrátt fyrir allt horfir nú betur um sjálfstæði Íslands en nokkur undanfarin ár.

Það er nánast einkennilegt til þess að hugsa nú þegar lýðveldið er sjötugt að fyrir aðeins fáum misserum reyndu Samfylkingin og VG með ógleymanlegri tækifærisaðstoð Framsóknarflokksins að nýta sér svæsna efnahagskreppu til að hrinda Íslandi undir Evrópusambandið.

Helstu hvatamenn að þessu dreymdi um að Íslendingar fengju hraðferð inn í sambandið enda máttu menn vita að stuðningur við aðild myndi minnka hratt um leið og landsmenn næðu áttum eftir bankahrunið.

Aðildin átti jafnvel að vera klöppuð og klár tveimur árum eftir hrunið enda átti um leið að tillögu Framsóknarflokksins að farga stjórnarskrá lýðveldisins og losna þar með við þröskuld á leiðinni til Brussel.

En jafn skjótt og viðhorfskannanir sýndu meirihluta Íslendinga á ný andsnúinn aðild var hægt á aðildarvélinni og á rúmum fjórum árum tókst vinstri stjórninni jafnvel ekki að „kíkja í pakkann“ þannig að sæist í helstu mál á borð við sjávarútvegsmál.

Vinstri stjórnin sem vildi ljúka aðlögun Íslands að ESB var ekki nálægt því að takast það á fjórum árum. Þá heimta menn að ríkisstjórn sem er andvíg aðildinni ljúki henni hið snarasta!

Það gleymist nefnilega oft að til þess að ljúka „viðræðum“ við ESB þurfa umsóknarríki að laga sig svo að sambandinu að þau falli eins og flís við rass. Það er fjarstæðukennd krafa að íslensk stjórnvöld, þing og ríkisstjórn, sem eru andvíg aðild að ESB haldi áfram að laga landið að þessu sama ESB.

Ísland verður ekki aðili að ESB á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis eru andvíg aðild, rétt eins og meirihluti aðspurðrar í viðhofskönnunum.

Jafnvel þótt svo ólíklega færi að ríkisstjórn með aðra stefnu tæki við að loknum þingkosningum árið 2017 og gengi betur að ljúka aðlöguninni en þeirri síðustu sem það reyndi ættu menn eftir að gera breytingar á stjórnarskrá sem heimila slíkt valdaframsal sem ESB aðild væri.

Á sjötugsafmæli lýðveldisins horfir því betur fyrir sjálfstæðu Íslandi en nokkur undanfarin ár. Það má fagna af minna tilefni.