Laugardagur 14. júní 2014

Vefþjóðviljinn 165. tbl. 18. árg.

Hlutfall aldraðra á hvern vinnandi mann mun tvöfaldast á næsta aldarfjórðungi. Úr spá hagstofunnar um mannfjölda 2013–2060.
Hlutfall aldraðra á hvern vinnandi mann mun tvöfaldast á næsta aldarfjórðungi. Úr spá hagstofunnar um mannfjölda 2013–2060.

Á neðstu línunni á myndinni hér að ofan má sé nokkuð ákveðna beygju upp á við á síðustu árum eða frá 2010. Línan sýnir hlutfall aldraðra (65 ára og eldri) á móti vinnandi (19-64 ára). Undanfarna áratugi hefur þetta hlutfall verið 20 aldraðir á hverja 100 vinnandi en á næsta aldarfjórðungi er gert ráð fyrir að hlutfallið hækki í 40 aldraða á hverja 100 vinnandi.

Eftir miðbik aldarinnar má gera ráð fyrir að aðeins tveir vinnandi menn verði á móti hverjum öldruðum. Þegar börn (yngri en 19 ára) eru svo tekin með í reikninginn verður hlutfall vinnandi á móti börnum og öldruðum farið að nálgast einn.

Þessi beygja upp á við skýrist að mestu af því stökki sem verð í fæðingum eftir seinna stríð en síðan má segja að 4.000 til 5.000 Íslendingar hafi fæðst árlega. Nú eru þessir stóru árgangar að byrja að fara á eftirlaun.

Það gefur auga leið að þegar börn og aldraðir verða orðin jafnmörg og vinnandi einstaklingar að meira en skatttekjur hvers ár þarf til að tryggja öllum sómasamleg kjör og þjónustu.

Þess vegna verður hver og einn að sýna fyrirhyggju og leggja með einhverjum hætti fyrir til efri áranna. Það er óraunhæft að treysta á minnkandi hlutfall skattgreiðenda í þeim efnum.

En til þess að þeir sem vilja spara, hvort sem það er með greiðslu í lífeyrissjóð eða með öðrum hætti, geti gert það með sæmilegri áhættudreifingu er algerlega nauðsynlegt að afnema gjaldeyrishöftin.

Íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir sparifjáreigendur hafa nú þegar verið lokaðir inni í krónusparnaði í 5 ár.

Að þessu sögðu er hins vegar rétt að geta þess að staða Íslands, bæði hvað varðar söfnun lífeyrissparnaðar og aldursdreifingu þjóðarinnar, er miklu betri en margra Evrópuríkja. Það væri afleitt að glata þeirri stöðu vegna heimatilbúins vanda á borð við gjaldeyrishöftin.