Föstudagur 13. júní 2014

Vefþjóðviljinn 164. tbl. 18. árg.

Eins og karlmenn eru nú sagðir hafa gott af því að kynna sér jafnréttismál kynjanna er aðeins einn þeirra meðal starfsmanna jafnréttisstofu. Svo eru 360 íslenskar konur farnar á jafnréttisráðstefnu í Malmö.
Eins og karlmenn eru nú sagðir hafa gott af því að kynna sér jafnréttismál kynjanna er aðeins einn þeirra meðal starfsmanna jafnréttisstofu. Svo eru 360 íslenskar konur farnar á jafnréttisráðstefnu í Malmö.

Oft heyrist fólk tala um atvinnurekendur og eigendur fyrirtækja sem aurapúka. Þeir haldi niðri launum en vilji umfram allt hámarka eigin hagnað. Ofurseldir græðgi og sérhygli. Fjölmargir vilja ekki einkarekstur í menntamálum og heilbrigðismálum því einkaaðilarnir muni auðvitað vanrækja viðhald, hafa of fáa á vakt, kaupa inn ódýr lyf og svo framvegis, allt til þess að halda eigin kostnaði í lágmarki en gróðanum í hámarki.

Þetta eru algeng sjónarmið.

Nema þegar menn byrja á einni meinlokunni, „launamun kynjanna“, eða jafnvel „óútskýrðum launamun kynjanna“. Þá virðist sama fólk gjarnan trúa því að fyrirtækiseigandinn, sem alla aðra daga er gráðugur nirfill sem vill takmarka allan kostnað og spara allt sem hægt er, greiði hluta starfsmanna sinna hærri laun en hann þyrfti, bara til að taka þátt í útbreiddu alheimssamsæri karlmanna gegn þeim konum, sem allir viti að séu nákvæmlega jafn góðir starfsmenn og karlarnir.

Margir sem þessu trúa eru nú staddir í Malmö í Svíþjóð þar sem nú er haldin mikil ráðstefna um kvenréttindi, en í yfirskrift ráðstefnunnar segir „New action on women‘s rights“, svo enginn þarf að óttast að einhver réttindi karlmanna verði þar ofarlega á baugi. Samkvæmt fréttum eru 360 íslenskir jafnréttissérfræðingar staddir á ráðstefnunni og væri verðugt verkefni fyrir fjölmiðlamenn að kanna hversu margir þessara 360 hafa farið á ráðstefnuna á eigin kostnað.

Hér má spyrja þriggja spurninga. Hvað ætli skattgreiðendur ríkis og sveitarfélaga hafi greitt ferðakostnað, uppihald, dagpeninga og ráðstefnugjöld fyrir marga íslenska þátttakendur á ráðstefnunni? Hver ætli heildarútgjöld ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra séu vegna ráðstefnunnar? Hversu margir fjölmiðlar munu reyna að afla svaranna við þessum spurningum?

Menn geta reynt að geta sér til um svörin við fyrstu tveimur spurningunum. En svarið við þeirri þriðju verður næstum örugglega núll.