Vefþjóðviljinn 166. tbl. 18. árg.
Stundum þarf að segja sjálfsagða hluti. Einstaka sinnum þarf meira að segja að margsegja sjálfsagða hluti. Það eru til dæmis sjálfsagðir hlutir sem Einar S. Hálfdanarson, hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi, segir í grein í laugardagsblaði Morgunblaðsins, en það eru sjálfsagðir hlutir sem væntanlega þarf að segja margoft áður en þeir, sem þurfa að skilja þá, sætta sig við að þeir eru réttir.
Grein Einars heitir „Utanríkisráðherra getur afturkallað ESB-umsóknina“, og fjallar um það augljósa atriði. Það er nefnilega engin þörf á því að afgreiða þingsályktunartillögu áður en inngöngubeiðnin í Evrópusambandið verður afturkölluð. Það er grundvallarmisskilningur ef menn halda að það, að síðasta þing hafi samþykkt ályktun áður en inngöngubeiðnin var send verði til þess að næsta þing þurfi að samþykkja ályktun áður en beiðnin verður afturkölluð.
Þingsályktun er einfaldlega yfirlýsing um vilja alþingis á hverjum tíma. Meirihluti þeirra þingmanna, sem sátu á þingi sumarið 2009, vildi að Ísland óskaði eftir inngöngu í Evrópusambandið. Síðan hefur verið kjörið nýtt þing. Það er ekki þannig að einhver þingsályktun frá sumrinu 2009 sé „í gildi“, og verði það þar til samþykkt hafi verið önnur þingsályktun um sama mál. Það er ekki þannig að allar þingsályktanir síðustu áratuga séu „í gildi“.
Þeir sem halda eitthvað í þessa veru, þeir rugla saman lögum og þingsályktun. Auðvitað hefði þingið getað sett lög um að Ísland skyldi sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu. Ef lög eiga að falla úr gildi þarf auðvitað að setja ný lög. En það þarf ekki nýjar þingsályktanir til að fella eldri þingsályktanir „úr gildi“. Þingsályktunin frá sumrinu 2009 er einfaldlega yfirlýsing um að þingið sem sat 2009 hafi ákveðinn vilja. Þegar umboði þess þings lýkur, skiptir engu máli lengur hvað það þing vildi.
En nú lagði utanríkisráðherra fram tillögu að þingsályktun, sem ekki er búið að samþykkja. Skiptir það ekki máli?
Þingsályktunartillaga utanríkisráðherrans var ekki felld í þinginu. Augljóst var að hún naut stuðnings meirihluta þingmanna. Það sást best á því hvernig ESB-sinnar á þinginu börðust gegn henni. Þeir beittu málþófi og hótunum um að taka önnur mál í gíslingu ef tillagan yrði samþykkt.
Ef ESB-sinnum hefði dottið í hug að ekki væri meirihluti fyrir tillögunni þá hefðu þeir auðvitað sagt: Gerið svo vel, berið þessa tillögu undir atkvæði og sjáið hvað gerist.
Öll barátta ESB-sinna í þinginu snerist um að hindra að tillagan yrði borin undir atkvæði. Fundarstjórn forseta og „störf þingsins“ voru rædd dögum saman. Sífellt var krafist frestun fundar og auðvitað var alltaf látið undan þeim kröfum eins og flestum öðrum. Einn daginn var hneykslunarefnið það að næsti fundur forystumanna flokkanna um málið var boðaður úr ræðustól alþingis en ekki utan ræðustólsins. Fréttastofa Ríkisútvarpsins spilaði auðvitað með í því stóra máli, eins og flestum öðrum.
Með tillögu utanríkisráðherra og samþykkt þingflokka beggja stjórnarflokkanna var því lýst yfir að ríkisstjórnin og þingflokkar hennar vildu að inngöngubeiðnin yrði afturkölluð. Þingið fékk færi á að láta til sín taka. Þingmenn sáu ekki ástæðu til þess. Stjórnarandstaðan lagði allt upp úr því að tillagan kæmi ekki til atkvæða. Henni datt ekki í hug að halda því fram að ekki væri þingmeirihluti fyrir henni. Það er því á engan hátt gegn þingræði að utanríkisráðherra afturkalli inngöngubeiðnina formlega.
Gegn hvaða þingmeirihluta færi slík afturköllun? Hvaða 32 eða fleiri þingmenn vilja að Ísland verði áfram umsóknarríki? Er þetta ekki lykilspurning sem fréttamenn landsins gæta vel að spyrja aldrei?
Það eina sem gæti mælt gegn því að utanríkisráðherra afturkallaði inngöngubeiðnina, væri ef menn teldu að meirihluti þingmanna vildi að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu og stefni þannig að inngöngu í Evrópusambandið. Ef 32 eða fleiri þingmenn vilja slíkt, þá kynni að vera ástæða fyrir utanríkisráðherra að fara sér hægar. En sú staða er alls ekki uppi, enda dettur ekki einu sinni ósvífnustu þingmönnum stjórnarandstöðunnar í hug að halda því fram að meirihluti þingmanna vilji að Ísland sé umsóknarríki.
Inngöngubeiðnin í Evrópusambandið er yfirlýsing Íslands um að landið vilji ganga í Evrópusambandið. Þetta er ekki yfirlýsing um að landið vilji „sjá samninginn“, eins og ESB-sinnar segja í samfelldum viðtölum og fréttamenn gera enga athugasemd við. Þegar hvorki ríkisstjórn né meirihluti alþingis vill að Ísland gangi í Evrópusambandið kemur ekki til greina að landið sé umsóknarríki í Evrópusambandið. Þegar mánuðum saman hefur legið fyrir að ríkisstjórnin vill að inngöngubeiðnin verði afturkölluð en þingið tekur ekki fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni, er augljóst að heimilt er að afturkalla inngöngubeiðnina.
Utanríkisráðherra á einfaldlega að tilkynna Evrópusambandinu að inngöngubeiðnin sé afturkölluð og þá geta menn farið að nýta tíma sinn til brýnni málefna. Engum dettur í hug að fyrir slíkri ákvörðun sé ekki þingmeirihluti.
Í þessu máli blasir það við, sem sagt hefur verið af öðru tilefni, að menn hafa ekkert að óttast nema óttann sjálfan. En að vísu er hann töluverður í öllum átakamálum og það skynja bæði stjórnarandstæðingar, fréttamenn og aðrir aðgerðasinnar.