Fimmtudagur 20. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 51. tbl. 18. árg.

Hversu hlynntur eða andvígur ert þú því, að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig,að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana?
Hversu hlynntur eða andvígur ert þú því, að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig,að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana?

Meðal þess sem síðasta vinstristjórn notaði síðasta kjörtímabil til að gera, var að gera atlögu að stjórnarskrá landsins. Er óþarfi að rekja hér og nú þá sögu, sem þó ætti ekki að gleymast. Vonandi fær stjórnarskráin nú að vera í friði á næstu árum og vonandi skilur nýr þingmeirihluti að honum er ekki skylt að reka erindi fyrri meirihluta.

Engu að síður er nú starfandi nefnd sem hyggst vinna að breytingum að stjórnarskránni. Fyrir nokkru skrifaði einn nefndarmanna blaðagrein og nefndi þar nokkur atriði sem væru til umfjöllunar. Þar á meðal sagði hann að væri sú hugmynd að setja í stjórnarskrána ákvæði sem leyfði að íslenskt ríkisvald yrði framselt í þágu alþjóðlegrar og evrópskrar samvinnu. Almenn samstaða væri um þetta.

Andríki kom á óvart að heyra að um slíkar hugmyndir væri almenn samstaða. Félagið fékk því MMR til að kanna hug fólks til þess álitaefnis, hvort því fyndist koma til greina að heimilað yrði að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana.

Könnunin var gerð 11. – 15. febrúar síðastliðinn og spurt var:

Hversu hlynntur eða andvígur ert þú því, að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig,að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana?

Niðurstöðurnar eru afgerandi. 68,9% eru andvíg því að opnað sé fyrir slíkt framsal og aðeins 14,3% því fylgjandi.