Vefþjóðviljinn 50. tbl. 18. árg.
Það þing sem kosið var árið 2009 og missti umboð sitt vorið 2013 ákvað að Ísland skyldi óska eftir inngöngu í Evrópusambandið. Ísland lýsti því þar með yfir að landið vildi ganga í Evrópusambandið. Ekki að landið vildi kanna hvernig „samningur væri í boði“, heldur að landið vildi ganga í Evrópusambandið.
Ísland fékk því stöðu „umsóknarríkis“. Ekki stöðu þeirra sem hafa ekki ákveðið sig en „vilja sjá samninginn“.
Evrópusambandið stendur ekki í neinum samningaviðræðum við umsóknarríki sín. Evrópusambandið hefur margsinnis reynt að útskýra fyrir mönnum að „viðræðurnar“ snúast um það hvernig umsóknarríkinu gengur að innleiða um 90.000 blaðsíður af reglum frá Brussel.
Nú hefur verið kosið nýtt alþingi. Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ríkisstjórnin er andvíg því. Báðir ríkisstjórnarflokkar eru eindregið andvígir því. Á góðum degi segist VG vera á móti því líka.
Þegar yfirgnæfandi meirihluti þingmanna er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið, þá kemur auðvitað ekki til greina að Ísland hafi áfram stöðu „umsóknarríkis“.
Þegar búið verður að afturkalla inngöngubeiðnina, þá mun varla nokkur maður skilja að þess hafi verið krafist að land, þar sem yfirgnæfandi meirihluti nýlega kjörins þings er algerlega andvígur inngöngu í Evrópusambandið, haldi áfram að lýsa því yfir á alþjóðavettvangi að að landið vilji samt ganga í þetta sama samband.
Inngöngubeiðni í Evrópusambandið felur í sér yfirlýsingu um að land vilji ganga í Evrópusambandið. Sú inngöngubeiðni var send án þjóðaratkvæðis og byggði einungis á naumum vilja þáverandi þingmanna. Fyrst sá þingvilji er nú alls ekki fyrir hendi lengur, getur inngöngubeiðin auðvitað ekki staðið lengur. Alþingi er andvígt inngöngu í Evrópusambandið og óhjákvæmileg afleiðing þess er að inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið verður afturkölluð.