Þriðjudagur 18. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 49. tbl. 18. árg.

Forsætisráðherra segir heimilin ekki mega vera berskjölduð fyrir því að fá að velja sér mat úr hillum verslana.
Forsætisráðherra segir heimilin ekki mega vera berskjölduð fyrir því að fá að velja sér mat úr hillum verslana.

Gísli Marteinn Baldursson spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um landbúnaðarmál í síðasta sunnudagsþætti Ríkissjónvarpsins. Forsætisráðherra hefur virst heldur mótfallinn auknu frelsi í landbúnaðarmálum og jafnvel aftar á merinni en sjálfur landbúnaðarráðherrann.

GMB: Af hverju ertu með þessa skoðun, ef ég má spyrja. Af hverju má ekki einhver út í bæ kaupa sér útlenskan ost án þess að á honum séu ofurtollar?

SDG: Nú ertu að halda því fram að ég sé með einhverja skoðun sem þú gefur þér. Allt í lagi við skulum bara hafa viðtalið svona ef að það einfaldar hlutina.

Eftir nokkurt stapp fékk ráðherrann svo gott svigrúm til að sýna fram á að Gísli Marteinn hefði gefið sér eitthvað um skoðanir hans sem ekki er rétt.

SDG: Þá lýsir þú því hér að menn vilji standa vörð um ofurtolla. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að innlendir framleiðendur búi við það sem menn í öllum löndunum í kringum okkur, sem eru í matvælaframleiðslu, búa við, við ákveðna heimamarkaðsvernd. Þetta er ekki bara til að vernda greinina, þetta er til að vernda samfélagið í heild, þetta snýst ekki bara um mætvælaöryggi og fæðuöryggi, þetta snýst líka um efnahagslegt öryggi eins og við sáum núna í þeim hamförum sem við gengum í gegnum á undanförnum árum, að það var ekki bara mikilvægt, það skipti sköpum að hafa innlenda matvælaframleiðslu sem sparaði okkur 40, 50 milljarða í gjaldeyri sem við áttum ekki til á ári. Ef að við hefðum verið í þeirri stöðu að þurfa að flytja þetta allt inn þá hefði staða okkar gagnvart útlöndum, gagnvart viðsemjendum okkar, gagnvart lánveitendum, ekki aðeins verið miklu veikari, hún hefði verið nánast óbærileg vegna þess að við vorum á nippinu með það að eiga ekki nógu mikinn gjaldeyri í þessu landi til þess að standa undir lífinu í landinu. Þetta sannaði svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að standa vörð um innlenda framleiðslu. Og svo bætist eitt við. Og það er það að með því að við samfélagið erum í raun að ráða bændur til að framleiða fyrir okkur mat, og borgum þeim mjög lítið fyrir, þeir eru ekki á sérlega góðum kjörum bændur, þá erum við hér að styrkja neytendur. Við erum að efla innlenda framleiðslu á matvælum, meðal annars með þeim afleiðingum að hér eru innlend matvæli seld með helmingi minni álagningu heldur en innflutt.

Gísli Marteinn vakti þá athygli ráðherrans á að hér væru ýmsar innfluttar nauðsynjavörur á markaði sem hægt væri að hefja framleiðslu á hér með rökum ráðherrans. Ekki stóð á svari ráðherrans.

SDG: Ég þekki alla þessa Heimdellingarullu.

Þá var ráðherrann spurður beint hvort til stæði að lækka tolla á matvæli.

SDG: Ég held að það sé mjög æskilegt að einfalda þetta kerfi allt saman og það verður gert. Hins vegar væri mjög óæskilegt að sú einföldun leiddi til veikingar á stöðu innlendra framleiðenda gagnvart erlendum og þar með veikingu á stöðu heimilanna í landinu sem að væru berskjölduð fyrir því að erlend matvæli myndu ryðja þeim innlendu úr vegi og menn þyrftu að greiða töluvert hærri álagningu heldur en þeir þurfa að gera nú.

Gísli Marteinn gaf sér í upphafi viðtalsins við forsætisráðherra væri fremur andsnúinn auknu frelsi í landbúnaðarmálum. Það er augljóslega rangt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er algerlega andvígur öllu frekara frelsi neytenda til að velja sér mat á diskinn.