Mánudagur 17. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 48. tbl. 18. árg.

Að leiðarlokum. Ófáir kílómetrar og skattar að baki.
Að leiðarlokum. Ófáir kílómetrar og skattar að baki.

Nú um miðjan febrúar þurfa bíleigendur að greiða fyrri hluta bifreiðagjalda ársins í ríkissjóð. Þessi gjöld bætast ofan á annað sem lagt er á bíleigendur. Sá sem kaupir sér nýjan bíl þarf að greiða mjög há opinber gjöld, ofan á bílverðið til umboðsins. Í hvert sinn sem fyllt er á tankinn fer svo stórfé í ríkishítina.

Og svo eru bifreiðagjöld lögð á, á hverju ári.

Þetta finnst sumum mjög sanngjarnt. Hjólreiðatrúboðarnir benda glaðir á þessar tölur sem sönnun þess hversu „bíllaus lífstíll“ borgi sig vel.
En þrátt fyrir allt þetta þá vill yfirgnæfandi meirihluti fjölskyldna hafa yfir bíl að ráða. Það þarf ekki að koma á óvart. Bíllinn auðveldar daglegt líf verulega, fyrir utan frelsistilfinninguna sem hann veitir, jafnvel þótt bílnum sé ekki ekið landshornanna á milli. Sá sem á sinn eigin bíl, einstaklingur eða fjölskylda, er ekki lengur kominn upp á sveitarstjórnina sína, hvert hann getur farið og hvenær.

Svokallaðar almenningssamgöngur, sem almenningur borgar fyrir en aðeins lítið brot hans notar, snúast um að þar fara opinberir vagnar á opinberum tímum eftir opinberum leiðum, eins og embættismenn hafa skipulagt það. Þetta finnst mörgum fullgott í borgarana. Þeir sem ekki geti látið sér þetta nægja, eigi þá bara að hjóla milli staða. Það sé líka hollt. Ef einhver vill endilega eiga sinn eigin bíl, þá sé hann ekki of góður til að borga verulega í ríkissjóð fyrir að eiga bílinn og aftur stórfé fyrir hvern kílómetra sem hann fær að aka.

En einkabíllinn, sem er hið raunverulega almenningsfarartæki, er þarfasti þjónn fjölmargra, hvort sem skipulagssinnuðum sveitarstjórnarmönnum líkar það betur eða verr. Einkabíllinn veitir venjulegu fólki möguleikann á að fara leiðar sinnar, án þess standa úti á stöð og bíða eftir vagni sem kemur eftir tuttugu mínútur og ekur eftir leiðakerfi sem einhver nefnd hefur ákveðið. Að ekki sé talað um möguleikann á því að ferðast um landið án þess að vera bundinn við skipulagðar ferðir.

Það á að gera venjulegu fólki auðveldara að eignast eigin bifreið. Ekki með styrkjum heldur með því að létta opinberum gjöldum af bíleigendum. Þeir sem mest tala um jöfnuð ættu einmitt að fagna slíkum skattalækkunum. Þær myndu gagnast hinum venjulega bíleiganda, manninum sem reynir að reka fjölskyldubíl af sínum hóflegu tekjum. Ekki ekur hann um á forstjórajeppa sem fyrirtækið borgar og rekur.