Föstudagur 21. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 52. tbl. 18. árg.

Út vil ek.
Út vil ek.

Það er ekki aðeins mjög rökrétt hjá stjórnvöldum að leggja til að alþingi álykti um afturköllun inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Það væri í raun algerlega fráleitt að gera það ekki.

Ísland hefur núna stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu. Í því felst yfirlýsing landsins um að það vilji ganga í Evrópusambandið. Þegar meirihluti alþingis vill ekki ganga í Evrópusambandið þá er augljóst að ekki kemur lengur til greina að landið sé lengur „umsóknarríki“.

Evrópusambandssinnar krefjast þess nú að haldin verði sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda eigi áfram aðlögunarviðræðunum. Sjálfir neituðu þeir að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort inngöngubeiðni yrði send. Sjálfir neituðu þeir hvað eftir annað að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave. En núna eru þeir miklir talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er augljóst að ekki er ástæða til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort inngöngubeiðnin verði afturkölluð.

Þegar vinstristjórnin ákvað að send skyldi inngöngubeiðni í Evrópusambandið ákvað hún að ekki þyrfti þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka ákvörðun. Það þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að afturkalla ákvörðun sem var tekin án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það að senda inn beiðni um inngöngu Íslands í Evrópusambandið er ósk um grundvallarbreytingu á stjórnskipan landsins. Það er hægt að færa rök fyrir því að um slíka tillögu eigi að greiða atkvæði. En það að afturkalla inngöngubeiðnina er ekki tillaga um gerbreytingu á stjórnskipan landsins. Slík ákvörðun felur ekki í sér annað en að Ísland hyggist áfram vera sjálfstætt og fullvalda ríki.

Til að land geti gengið í Evrópusambandið þurfa bæði lýðræðislega kjörið þing þess og meirihluti kjósenda að vera fylgjandi slíkri inngöngu. Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna er andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Ekkert bendir til þess að meirihluti kjósenda sé annarrar skoðunar. Við þessar aðstæður kemur ekki til greina að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu og því fá engar skýrslur breytt.