Vefþjóðviljinn 22. tbl. 18. árg.
Á dögunum voru sagðar fréttir af því að leikstjóri dönsku kvikmyndarinnar Jagten hefði sagt frá því að hann hefði ekki getað gert myndina ef ekki hefðu komið til opinberir styrkir.
Einmitt, hafa margir hugsað. Þetta sýnir hvað styrkir eru mikilvægir. Það verður að vera hægt að gera svona myndir. Viljum við lifa í þjóðfélagi þar sem listin fær ekki að dafna? Við megum ekki hlusta á mann eins og Elliða bæjarstjóra í Vestmannaeyjum „sem hatar lífið“, eins og sagt var um hann í áramótaskaupinu.
Að minnsta kosti tvennt er um þetta að segja.
Af og til heyrast frásagnir eins og þessar. Bent er á dæmi um að opinberu fé hafi verið veitt eitthvert, og út hafi komið glæsilegt eða verðlaunað verk. Mynd sem fékk ríkulega styrki fékk áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Köln. Tónlistarhúsið er sagt mjög glæsilegt, í myndskreyttri grein í alþjóðlegu tímariti opinberra tónlistarhalla. Eftir að sveitarfélögin fóru í veglega uppbyggingu æfingaaðstöðu fyrir kúluvarp hefur árangur ungra kúluvarpara stórbatnað, segir fyrrverandi Evrópumeistari í kúluvarpi kvenna, Helmut Betrüger.
En auðvitað er það ekki réttlæting á opinbera styrknum þótt af og til komi dæmi um að þeir hafi skilað einhverjum slíkum árangri. Opinber framlög eru í raun tekin frá skattgreiðendum. Þeir eru neyddir til að fjármagna það sem þrýstihópurinn vill fá án þess að borga það sjálfur. Það að þrýstihópurinn fái svo í hendur það sem skattgreiðendur voru neyddir til að borga, réttlætir ekki að skattgreiðendur voru neyddir til að borga það.
Svo eiga menn ekki að geyma hinu sígilda um það sem sést og það sem ekki sést. Ríkið tekur pening úr vasa skattgreiðandans og færir kvikmyndagerðarmanni. Hann gerir kvikmynd og hún er sýnd á hátíðum í listrænum bíóhúsum sem Bestuflokkar Evrópu reka á kostnað evrópskra skattgreiðenda.
Myndin sést. En það sem sést ekki, er það sem ekki varð til af því að skattgreiðendur þurftu að fjármagna myndina. Skattgreiðandinn borgaði hærri skatt og hætti við að kaupa kjól. Afgreiðslukonan í búðinni fékk ekki bónus þá vikuna og hætti við að panta pizzu fyrir kærastann um helgina. Pizzustaðurinn sagði upp sendli. Hann fór á atvinnuleysisbætur. Víðsjá fékk til sín félagsfræðing sem minnti á að í efnahagshruni hafi Finnar lagt áherslu á að efla menninguna. Þess vegna væri mikilvægt að auka framlög til kvikmyndagerðar. Ríkisútvarpið bendir á að án styrkja hefði Jagten ekki verið gerð. Viljum við verða eins og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sem hatar lífið?