Vefþjóðviljinn 21. tbl. 18. árg.
Frosti Sigurjónsson alþingismaður er nýlega búinn að færa fyrir því rök að þingmenn eigi ekki að vera að vasast í að meta skatthlutföll og skattleysismörk sem þeir leiða í lög. Það ættu embættismenn að sjá um.
Í Fréttablaðinu á laugardaginn sagði:
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hafnar því í samtali við Fréttablaðið að þessi tengsl hafi nokkuð að gera með ákvörðunina og nefndin hafi ekki lagt mat á áhrif frímarksins á einstaka banka. Fjármálaráðuneytið hafi ákvarðað upphæðina og vafasamt sé hvort það sé hlutverk alþingismanna í nefndinni að „velja banka inn eða út“ úr markinu.
Nú hefur Frosti hins vegar viðurkennt, eða það er að minnsta kosti allra nýjasta útgáfa hans, að nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd hafi einmitt „valið banka inn eða út“ úr skattinum með því að setja 50 milljarða frískuldamark á skattinn. Skatturinn á að veita fjármagni í ríkissjóð svo mögulegt sé að þjóðnýta skuldir hluta landsmanna.
Með því vali efnahags- og viðskiptanefndar var einn viðskiptabanki valinn út úr skattinum en þrír látnir sitja uppi með hann.
Einn af þremur bönkum sem Frosti og félagar völdu til að greiða skattinn er Landsbankinn, sem er í 97% eigu ríkissjóðs. Annað hvort klípur Landsbankinn skattinn af almennum viðskiptavinum sínum eða arðgreiðslum sem ella hefðu runnið í ríkissjóð. Svo glæst er nú fjármögnun Framsóknarflokksins á „skuldaleiðréttingunni“.