Vefþjóðviljinn 23. tbl. 18. árg.
Um síðustu áramót féllu runnu út lög um fjárfestingarsamninga og ívilnananefnd. Það hvarflaði ekki að Vefþjóðviljanum að ríkisstjórn sem hefði það á stefnuskránni að einfalda löggjöf um fyrirtækjarekstur hefði á prjónunum að framlengja eða endurnýja þessi lög um að fjárfestar sitji á biðstofu iðnaðarráðherra, reyni að komast inn og á skrifstofuna og semja sig undan þeim sköttum og skyldum sem aðrir þurfa að búa við. Þessi furðulega mismunum hefur verið kölluð því fína nafni að ríkið geri „fjárfestingarsamninga“ um „ívilnanir“ vegna „nýfjárfestinga“.
En svo birtist frétt í Viðskiptablaðinu í dag um að Ragnheiður Elín Árnadóttir vinni nú að gerð frumvarps um að hún fái áfram áhugasama fjárfesta á biðstofuna hjá sér.
Á sömu síðu í blaðinu var svo önnur litlu ótrúlegri frétt um að nú hafi „átt sér stað ákveðin þróun á regluverki Evrópusambandsins að því er varðar að heimila ríkisaðstoð“ við svonefnd nýsköpunarfyrirtæki. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra skipaði nefnilega starfshóp í ágúst um skattívilnanir til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum í „litlum fyrirtækjum í vexti“. Þarna er því að opnast smuga til að flækja skattkerfið og mismuna fyrirtækjum eftir því hvort þau eru lítil í vexti eða eitthvað allt annað.