Laugardagur 18. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 18. tbl. 18. árg.

Leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu í efnahags- og viðskiptanefnd ætla að halda fund í nefndinni eftir helgi og gera tilraun til að skýra fyrir sjálfum sér hvers vegna þeir lögðu til 50 milljarða skattleysismörk á bankaskattinn.
Leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu í efnahags- og viðskiptanefnd ætla að halda fund í nefndinni eftir helgi og gera tilraun til að skýra fyrir sjálfum sér hvers vegna þeir lögðu til 50 milljarða skattleysismörk á bankaskattinn.

Þingmennirnir Frosti Sigurjónsson og Árni Páll Árnason berjast nú um lakasta þáttinn í níföldun Alþingis á skatti á fjármálafyriræki og 50 milljarða skattleysismörkum sem laumað var í lög síðustu þingdagana fyrir jól.

Frosti, sem er formaður þingnefndarinnar sem lagði þessa ofsahækkun og grófu mismunun til, sagði í gær í Ríkisútvarpinu að hann myndi ekki hvernig skattleysismörkin komu til.

Nei ég man ekki í sjálfu sér hvar og hvenær, á hvaða stigi, sú tala kemur en hún var allavega kynnt fyrir okkur í nefndinni 11. desember.

Það er annað en Frosti sagði á vef sínum á mánudaginn var þar sem hann andmælti því að þetta merkilega frískuldamark hefði komið inn í tillögur nefndarinnar rétt fyrir jól:

Frískuldamarkið kom ekki inn á síðustu starfsdögum þingsins fyrir jól…

Það er því ekki rétt … að frískuldamarkinu hafi á einhvern hátt verið hraðað sérstaklega í gegnum þingið.

Á sunnudaginn var sagði Frosti á Stöð 2 að hann vissi ekkert um hvernig skattleysismörkin hefðu verið fundin út.

Ég veit ekkert um hvernig talan er fundin út, þessir 50 milljarðar, þetta kemur semsagt frá ráðuneytinu.

Engu að síður reyndi Frosti í þessu viðtali við Stöð 2 að færa rök fyrir því að MP banki ætti að vera undanþeginn skattinum. Í viðtali við Vísi í gær viðurkenndi hann hins vegar að hafa haft rangt fyrir sér.

Ég hafði lesið þetta einhversstaðar eða séð í fréttum, hvort sem það var hjá Þorsteini Pálssyni eða hvað. Ég veit ekki einu sinni hvar ég hafði heimildir fyrir því, en þessu skaut upp í hausinn á mér þarna og var ekki rétt, eftir á að hyggja.

Árni Páll á sömuleiðis sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni undir forystu Frosta. Hann studdi skattaníföldunina að sjálfsögðu og lýsti í nefndaráliti sérstökum stuðningi við 50 milljarða skattleysismörkin.

Nú hefur Árni farið fram á fund í nefndinni til að hann geti kynnt sér hvernig 50 milljarða skattleysismörkin, sem hann mælti svo eindregið með, voru fundin út.

Í viðtali við Ríkisútvarpið í gær segir hann um skattleysismörkin sem hann taldi svo fín:

Við göngum út frá því þegar að þessi þegar að þetta frískuldamark er kynnt að það auðvitað byggi á efnislegum forsendum eins og okkur var sagt og núna viljum við fá að vita hvernig útreikningurinn á því nákvæmlega er.

Væri ekki líklegra til árangurs að kalla saman fund í stuðningsmannaklúbbi Leeds eða félagi sveppatínslumanna?