Föstudagur 17. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 17. tbl. 18. árg.

Vestasti hluti Evrópu.
Vestasti hluti Evrópu.

Það blasir auðvitað við að fráleitt er að efna til „þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.“ Slíkar viðræður koma auðvitað ekki til greina við þær aðstæður að mikill meirihluti lýðræðislega kjörins þings lands er andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Og þær viðræður, sem voru í gangi í tæp fjögur ár á valdatíma Jóhönnu Sigurðardóttur, voru auðvitað ekki samningaviðræður, eins og þeir virðast halda sem segjast vilja „sjá samninginn“, heldur yfirferð um þær breytingar sem Ísland var búið að gera og átti eftir að gera, til að laga sig að Evrópusambandinu.

Nóg um þetta að sinni. En segir það ekki mikla sögu um málstað þeirra aðildarsinna sem vilja slíka kosningu, að þeir segjast vilja halda hana samhliða sveitarstjórnarkosningum í maí?

Hvers vegna ætli þeir leggi það til? Möguleiki aðildarsinna til að sigra í slíkri kosningu, felst í því að nægilega stór hópur manna skilji ekki hvað felst í aðildarumsókn og þeim „viðræðum“ sem fara fram eftir að inngöngubeiðni er send til Brussel. Aðldarsinnar mega ekki til þess hugsa að menn átti sig á því að engar „samningaviðræður“ fara fram, heldur er litið svo á að umsóknarríkið hafi ákveðið að ganga inn í Evrópusambandið eins og það er, og svo er eingöngu rætt hvernig umsóknarríkinu gengur að uppfylla kröfurnar frá Brussel. Ekki öfugt.

Þeir sem alltaf láta eins og þeir vilji „upplýsta umræðu um Evrópumál“, hvers vegna ætli þeir vilji að slík kosning fari fram sama dag og menn um allt land kjósa til sveitarstjórnar, eftir kosningabaráttu sem fyrst og fremst snýst um borgar- og bæjarmálefni á hverjum stað?

Það er fullkomin vitleysa að efna til kosningar um „framhald aðildarviðræðna“. Það blasir við, eins og Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður benti á með virðingarverðum hætti í þinginu í gær, að þessum aðildarviðræðum ber að slíta.

En það segir líka sína sögu, að aðildarsinnar vilja að þessi kosning þeirra fari fram sama dag og kosningar um allt aðra hluti, eftir kosningabaráttu sem mun snúast um allt annað raunveruleikann á bak við inngöngubeiðnina í Evrópusambandið.