Fimmtudagur 16. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 16. tbl. 18. árg.

Skatturinn sem á að standa undir þjóðnýtingu húsnæðisskulda verður á endanum greiddur af viðskiptavinum bankanna.
Skatturinn sem á að standa undir þjóðnýtingu húsnæðisskulda verður á endanum greiddur af viðskiptavinum bankanna.

Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ætlun hennar að „lækka skatta“.

Engu að síður samþykkti Alþingi það 16. desember síðastliðinn að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki yrði nífaldaður, færi úr 0,041% í 0,376% af skattstofni. 

Skatturinn á að afla ríkissjóði tekna til að standa undir stórfelldri þjóðnýtingu á verðtryggðum íbúðalánum hjá hluta þjóðarinnar, svokallaðri „skuldaleiðréttingu.“

Skattar sem lagðir eru á atvinnulífið koma hins vegar eins og hver annar kostnaður fram í verði á vöru og þjónustu. Í þessu tilviki er lagður mjög hár skattur á fjármálafyrirtæki.

Það er augljóst að þessi nýi skattur mun birtast með einum eða öðrum hætti í þeim kjörum sem viðskiptavinum bankanna bjóðast. Þau verða lakari en þau ella væru. Útlánsvextir verða hærri, innlánsvextir lægri eða þjónustugjöld hærri.

Almenningur, fyrirtækin og aðrir viðskiptavinir bankanna verða þannig endanlegir greiðendur „skuldaleiðréttingarinnar“.