Vefþjóðviljinn 15. tbl. 18. árg.
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði í haust fram tillögu á þingi um stóreflingu skógræktar með ríkisstyrkjum, niðurgreiðslum og skattaívilnunum.
Jón segir í greinargerð með tillögunni:
Þrennt hefur öðru fremur hindrað fjárfestingu einkaaðila í nytjaskógrækt hér á landi; a) langur biðtími frá fjárfestingu til tekjugæfrar nýtingar, b) óvissa um markað fyrir afurðir og c) vantrú á að skógrækt í norðlægu, skóglausu landi geti skilað arði.
Til að vega á móti því að tré vaxi hægt í norðlægu landi og óvissu um að einhver vilji kaupa þau að hinum langa biðtíma loknum vill Jón fá að nýta hina tekjugæfu skattgreiðendur í landinu þannig „að ríkið bjóði gróðursetningarstyrk sem væri föst krónutala á hektara.“
Jón hlýtur að uppskera stuðning Steingríms J. Sigfússonar við þetta mál enda uppfyllir það helsta skilyrði þeirra félaga um að hinn almenni maður í landinu verði fyrir ónauðsynlegum kostnaði.
Þannig voru þeir félagar samstíga um að Íslendingar gengjust undir Icesave ánauðina 2011. Þeir félagar hafa svo með liðsinni Ragheiðar Elínar Árnadóttur tryggt að kaupa þarf til landsins rándýrt lífeldsneyti í stað hefðbundins ódýrara eldsneytis. Það mun kosta Íslendinga nokkur hundruð milljónir í erlendum gjaldeyri á þessu ári.
Helstu rök Steingríms og Jóns fyrir því að leiða þessa tilskipun ESB um „endurnýjanlegt“ eldsneyti í lög með hraða og offorsi er að þannig megi hygla innlendum framleiðendum eldsneytis enda var frumvarpið skrifað af einum slíkum. Því var „endurnýjanlegu“ eldsneyti ekki aðeins veitt skattfrelsi heldur beinlínis lögð kvöð á seljendur að ákveðið hlutfall eldsneytis yrði er vera með slíkan merkimiða.
Má ekki búast við því að þegar hríslurnar sem Jón vill að skattgreiðendur styrki fara að teygja sig mót himni að gerð verði krafa um að nokkrar síður í bókum og blöðum verði prentaðar á íslenskan pappír? Og húsgögn sem smíðuð eru úr íslensku lerki verði sömuleiðis undanþegin sköttum? Og ef það dugi ekki til hóti Jón því að setja tollvernd á íslenska pappírinn og timbrið eins og hann gerði á dögunum hvað eldsneytið varðar?
Það er vissuleg hægt og það er alveg hægt að hugsa sér það á seinni stigum. Ég meina, ríkið beitir tollum í margvíslegum innflutningi og við gerum það gagnvart efnum og innflutningi frá löndum þar sem við erum ekki með semsagt fríverslunarsamninga við.