Helgarsprokið 19. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 19. tbl. 18. árg.

Hér eru bæði almenn og sérstæk lög sem kveða á um falslaus kaup og engin ástæða til að innleiða bunkana af tilskipunum ESB um þau efni.
Hér eru bæði almenn og sérstæk lög sem kveða á um falslaus kaup og engin ástæða til að innleiða bunkana af tilskipunum ESB um þau efni.

Innleiða, innleiða, innleiða.

Nú láta neytendafrömuðir og þingmenn eins og þurfi að „innleiða“ nýja tilskipun Evrópusambandsins í íslensk lög því að þess eru sögð dæmi að erlendir kjúklingar hafi verið seldir hér á landi og kaupendur hafi mátt ætla að þar væri íslenskur skíthoppari á ferð.

Hér hefur áður verið nefnd sú tillaga að íslensk neytendalöggjöf yrði eins og það var orðað í Árna sögu biskups:

Falslaus kaup skulu föst vera, þau er einskis manns rétti er hrundið í.

Og þar með væri það upptalið. Þessi ágæta regla felur auðvitað í sér að ekki má blekkja mann til að kaupa erlendan fugl sem íslenskan.

Það er nefnilega af og frá að hér þurfi að „innleiða“ staflana af tilskipunum Evrópusambandsins til að banna venjuleg vörusvik.

Þegar eru í íslenskum lögum bæði almenn ákvæði gegn svikum og prettum en einnig sérstök ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að villt sér um fyrir neytendum hvað framleiðanda varðar.

Til dæmis 15. gr. laga n.r 93/1995 um merkingar:

Matvælaumbúðir skulu merktar með nafni og heimilisfangi framleiðanda matvælanna eða dreifanda þeirra. Þá skal heiti vörunnar koma fram ásamt upplýsingum um innihald, geymsluskilyrði, geymsluþol og nettóþyngd eða lagarmál.

Svo er 6. gr. reglugerðar um merkingu matvæla nr. 503/2005 um merkingar sem skylt er að setja á neytendaumbúðir:

Skylt er að merkja matvæli með eftirfarandi:

.
.
.
7. Heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða seljanda með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu. Heimilisfang skal gefið upp sem bær, borg eða hérað en auk þess er heimilt að skrá götuheiti, húsnúmer og/eða símanúmer.
8. Upplýsingar um uppruna eða framleiðsluland ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar réttan uppruna matvælanna.

Væri ekki ágætt að byrja á því að nota þessi íslensku lög ef menn telja sig svikna um hænu með íslenskt ríkisfang?