Föstudagur 22. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 326. tbl. 17. árg.

Síldargangan í Kolgrafarfjörð er líklega dæmi um óvæntar afleiðingar af því að níðast á skattgreiðendum.
Síldargangan í Kolgrafarfjörð er líklega dæmi um óvæntar afleiðingar af því að níðast á skattgreiðendum.

Enn og aftur er Kolgrafarfjörður fullur af síld. Sjávarútvegsráðherra hefur brugðist við þessu með því að leyfa frjálsar síldveiðar í firðinum, til að reyna að minnka bæði mengun og glötun verðmæta sem yrði við að síldin dræpist öll í firðinum óveidd.

En hvenær ætli menn þori að nefna í alvöru þann möguleika að fjarlægja þverun fjarðarins?

Fyrir nokkrum árum var ráðist í þá framkvæmd að þvera fjörðinn, með miklum kostnaði en svolítilli styttingu vegar milli þéttbýlisstaða á Snæfellsnesi. Að sjálfsögðu barðist Vefþjóðviljinn gegn kröfum um þverunina, allt frá vorinu 1999 og þar til henni var lokið.

Sú barátta var auðvitað háð í nafni sparnaðar hjá hinu opinbera. Ekki til þess að koma í veg fyrir að heilu síldartorfurnar króuðist inni í þveruðum firðinum. Það breytir ekki því að nú ætti að skoða í fullri alvöru hvort ekki sé ástæða til þess að fjarlægja þverunina.

Hugsanlega er ekki við þverunina að sakast um síldardauðann, þó hún sé vissulega mjög líkleg skýring. Það myndi hins vegar kosta peninga skattgreiðenda að fjarlægja hana, þeir tapa alltaf. En skilaboðin sem í því fælust til þeirra sem sífellt heimta nýjar framkvæmdir á kostnað skattgreiðenda, yrðu mikils virði og kæmu til frádráttar.