Fimmtudagur 21. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 325. tbl. 17. árg.

Aðeins ef pappír er sjáanlegur efst í sorptunnu í Reykjavík verður límdur svona miði á tunnuna.
Aðeins ef pappír er sjáanlegur efst í sorptunnu í Reykjavík verður límdur svona miði á tunnuna.

Reykjavíkurborg hefur að undanförnu hótað almenningi því að hefðbundnar sorptunnur verði ekki tæmdar finni starfsmenn sorphirðunnar laufblað, munnþurrku eða ástarbréf í tunnunni við losun.

Sem von er kæra almennir borgarar sig ekki um að gramsað sé í sorpi þeirra. Og það er ekki aðeins vegna þess að þeir vilji hafa einkalíf sitt í friði. Einn þeirra sendi Reykjavíkurborg til að mynda erindi á dögunum því hann hafði áhyggjur af heilsu starfsmanna sorphirðunnar ættu þeir að kafa til botns í sorptunnum í leit að hinum skelfilega pappír.

Deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar á skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar varð fyrir svörum.

[Þ]egar tunnur íbúa eru tæmdar eru þær opnaðar og ef einn eða fleiri af fimm pappírsflokkunum er sjáanlegur er tunnunni lokað aftur og límdur á hana límmiði með ástæðum þess að hún var ekki tæmd og nánari upplýsingar um hvert íbúinn geti snúið sér með framhaldið.

Þá hafa menn það. Starfsmenn sorphirðunnar eiga ekki að gramsa í tunnunum heldur aðeins opna þær. Tunnurnar verða tæmdar ef pappír er ekki sjáanlegur í efsta sorplaginu. Svartir sorppokar geta komið sér vel í þessum aðstæðum en einnig er gott að sæta lagi þegar tunnan hefur nýlega verið tæmd.