Laugardagur 23. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 327. tbl. 17. árg.

Nú vilja þingmenn Bjartrar framtíðar að ríkið veiti fyrirtækjum broskarl.
Nú vilja þingmenn Bjartrar framtíðar að ríkið veiti fyrirtækjum broskarl.

Jæja þá er broskarlinn loks á leið í íslenska löggjöf, það hefur tekið Alþingi nær 1100 ár að átta sig á mikilvægi hans fyrir löggjöf Íslendinga.

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa nefnilega lagt fram tillögu til þingsályktunar um að fela ráðherra að leggja nú hið snarasta fram frumvarp um broskarlinn sem þingmenn gætu afgreitt í bunka með 50 öðrum frumvörpum kvöldið sem þingi lýkur í vor án þess að hafa hugmynd um hver broskallinn er, hvað hann kostar, hve marga nýja starfsmenn þarf að ráða til ríkisins til að sinna honum, hve mikið þarf að hækka skattana vegna hans eða hve mikill skellur hann verður fyrir skuldsettan gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Broskarlinn er raunar gæðakerfi fyrir matvælaiðnað. Vandséð er hvaða erindi hann eða önnur slík kerfi eiga í lagasafnið. Þau fyrirtæki sem telja það gott fyrir viðskiptin að geta flaggað broskarlinum eða öðrum gæðavottunum geta hvenær sem er fengið utanaðkomandi aðila til að skoða gæðamál sín og gefa út slík vottorð ef allt er í stakasta lagi. Og svo er líka samkeppni milli gæðakerfa sem leiðir til fjölbreytileika og þróunar. Það er óþarft að drepa það allt saman með miðstýringu.