Miðvikudagur 13. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 317. tbl. 17. árg.

Það hefur verið frekar skemmtilegt að fylgjast með stjórnarandstæðingum og álitsgjöfum reyna að finna því allt til foráttu að Ásmundur Einar Daðason þingmaður hafi verið ráðinn aðstoðarmaður forsætisráðherra. Flest stóryrði þeirra verða nefnilega léttvæg þegar Ásmundur Einar þiggur engin laun eða fríðindi fyrir starfið.

Ef hann fengi greidd laun fyrir starfið mætti réttlæta sumt af því sem sagt hefur verið. Ef starfið skipti máli vegna afkomu hans mætti rökstyðja að sjálfstæði hans sem þingmanns gagnvart ráðherranum og ríkisstjórninni hefði minnkað mikið. Þá væri líka komin leið fyrir þingmenn að bjóða sig til sölu. Hér á það ekki við.

Skemmtilegast var þegar Steingrímur J. Sigfússon sagði á þingi að nú væri Alþingi farið að greiða launakostnað fyrir stjórnsýsluna. Fréttamenn munu kannski spyrja hann að því hvort hann hafi haft áhyggjur af því þegar Alþingi greiddi þá með sama hætti, frá 1995 til 2009, launakostnað formanns BSRB.

En þeir sem hafa áhyggjur af fjárhagslegu sjálfstæði þingmanna gagnvart ráðherrum munu í framhaldi af reiði sinni vegna ráðningar Ásmundar Einars í launalaust starf auðvitað taka upp baráttu gegn öllum slíkum launuðum tengslum. Launaðri nefndarsetu á vegum ráðuneyta, launaðri setu í starfshópum og öðru slíku. Fleira ættu þeir að skoða og meðal annars það að almennir þingmenn, jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu, geta haft mikinn hag af því að ríkisstjórn sitji sem lengst og ekki verði boðað til kosninga. Við þingrof þurfa þingmenn að verja sæti sitt, fyrst fyrir flokksbræðrum í prófkjöri, nema auðvitað þeir hjá Bjartri framtíð og „Pírötum“, og svo í kosningunum sjálfum. Ásmundur Einar Daðason hefur hins vegar ekki fjárhagslega hagsmuni af starfi sínu fyrir forsætisráðherra.

Vinstristjórnin knúði fram lagabreytingu um fjölgun aðstoðarmanna. Ef núverandi ríkisstjórn, sem þarf að spara gríðarlega í ríkisrekstri, telur skynsamlegt að auka kostnað ríkisins af aðstoðarmönnum, þá hlýtur að mega ætlast til þess að hún skeri á móti niður annan kostnað hjá sér. Þar væri táknrænt ef ráðherrar myndu ákveða verulegan niðurskurð ferðakostnaðar í ráðuneytunum.