Fimmtudagur 14. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 318. tbl. 17. árg.

Um 40% af maísuppskeru Bandaríkjanna er brennt í bílvélum sem etanóli.
Um 40% af maísuppskeru Bandaríkjanna er brennt í bílvélum sem etanóli.

Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vakti athygli á þeirri staðreynd í þingræðu í gær að ný lög um endurnýjanlegt eldsneyti muni frá og með næstu áramótum valda miklum og óþörfum kostnaði fyrir þjóðarbúið. Tilskipun ESB krefst þess að Íslendingar leiði þetta í lög fyrir 2020. Hið endurnýjanlega eldsneyti er ekki aðeins dýrara í innkaupum til landsins og rýrara að orku heldur stafar af því ómældur kostnaður vegna umstangs hér innanlands.

Enginn nema Alþingi krefst þess að Ísland beri þennan kostnaðarauka fyrr en árið 2020. Mér finnst fullt tilefni til þess að þingið endurskoði þessa ákvörðun sína í ljósi þessara upplýsinga.

Lögin leiða ekki til minni mengunar. Útblástur bifreiða verður síst minni þótt blandað verði með eldsneyti úr korni. Framleiðsla á eldsneyti með ræktarlandi hefur jafnframt verið harðlega gagnrýnd fyrir að leiða til hækkandi matvælaverðs í heiminum og meiri hungursneyðar.

Flutningsmaður þessara ólaga síðastliðinn vetur var Steingrímur J. Sigfússon sem virðist hafa sérstaka ánægju af því að Íslendingar verði fyrir óþörfum gjaldeyrisútgjöldum, ekki síst ef þau koma til vegna löglausra krafna útlendinga, sérstaklega þó frá ESB.

Það er því við hæfi að einn af helstu baráttumönnunum gegn síðasta Icesave samningi Steingríms veki athygli á þessu óþurftarverki.