Þriðjudagur 12. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 316. tbl. 17. árg.

Hugtakið „sjálfbært“ er mikið notað af þeim sem segjast umhverfisverndarsinnar. Og eru þá um leið öll vopn slegin úr höndum meintra umhverfissóða, því hver vill ekki vera sjálfbær? Var það ekki samþykkt á alheimsráðstefnu umhverfissinna í Ríó að heimurinn yrði sjálfbær? Eða var það á Balí?

En eins og verður stundum með góðar hugmyndir þá er þeim hiklaust stolið. Nú hefur til að mynda verið sett upp sérstök gjörgæsla fyrir skuldum vafin sveitarfélög landsins. Þar er mikið álag.

Reykjanesbær er til að mynda nýkominn úr gæslu og frá því sagði á vef Morgunblaðsins í dag að skuldastaða hans upp á 257% væri hvorki meira né minna en sjálfbær:

Bæjarsjóður Reykjanesbæjar skuldar 22,3 milljarða og samstaðan öll skuldar 37,5 milljarða. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er 257%. Þórir segir að þetta séu miklar skuldir, en hann segist telja að sveitarfélagið ráði við þær og sé sjálfbært.

Það er bara spurning hver vill vera sjálfbær eftir þessi skilgreiningu á hugtakinu.