Vefþjóðviljinn 315. tbl. 17. árg.
Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur nú skilað tillögum sínum. Ekki er ólíklegt að flestar tillögurnar yrðu til bóta, þó of snemmt sé að fullyrða það strax.
Á hinn bóginn blasir við að tillögurnar eru ekki um það sem nauðsynlegt er að gera á allra næstu árum, sem er að hugsa ríkisrekstur upp á nýtt. Menn verða að sjá ríki og sveitarfélög eins og þau raunverulega eru.
Hið opinbera er að mestu rekið fyrir gjöld sem tekin eru af fólki nauðugu. Greiði það ekki gjöldin verður því refsað. Menn geta verið sviptir frelsi sínu ef þeir koma sér undan að greiða til ríkis og sveitarfélaga.
Það á að horfa á öll útgjöld og verkefni hins opinbera í þessu ljósi. Verkefnin og útgjöldin eru fjármögnuð með nauðungargjöldum og þess vegna ætti hið opinbera ekki að sinna öðru en því sem er svo mikilvægt að menn telja sig geta réttlætt nauðungargjöld af öðru fólki til að vinna verkið.
Og þeir sem leggja til opinber útgjöld ættu að þurfa að svara spurningunni hvort ríkisútgjöldin séu svo mikilvæg að afla megi fjár til þeirra með nauðungargjöldum og fangelsa það fólk sem ekki borgar.
Ef menn þyrftu að segja eitthvað eins og „Það er svo mikilvægt að senda framsækinn listamann til að vera með innsetningu á Feneyjatvíæringnum að til þess teljum við réttlætanlegt að skattleggja fyrirtækin og fólkið í landinu til að borga fyrir hann fargjaldið“, þá myndi hugsanlega draga eitthvað úr útgjaldakröfunum. „Við viljum frekar að þessar þúsund milljónir verði notaðar til að borga fyrir leigu á Tónlistarhúsinu í eitt ár enn, og þessar þúsund milljónir fari í Sinfónínuhljómsveitina, en að þessar tvö þúsund milljónir verði eftir hjá venjulegum skattgreiðendum í landinu, sem þá gætu notað þær til eigin nauðsynja.“ „Við viljum frekar að þessar fimmhundruð milljónir fari í að reisa nýja sundlaug en að útsvarsgreiðendur eigi þær áfram og kaupi sér eitthvað sem þeir vilja sjálfir.“
Ríkisrekstur og rekstur sveitarfélaga er allur svona. Hann fer fram fyrir nauðungargjöld af fólki og fyrirtækjum. Þeir sem styðja opinber útgjöld ættu að segja hreinskilnislega hvað þeir biðja um. Nauðungargjöld til að borga fyrir baráttumál.