Helgarsprokið 20. október 2013

Vefþjóðviljinn 293. tbl. 17. árg.

Síðasta mánuðinn deildu andstæðar fylkingar bandarískra stjórnmála hart um fjárlög ríkisins og fleiri mál. Varla hefur farið fram hjá neinum sanngjörnum manni hvor fylkingin var óbilgjarnari og hvor reyndi meira að ná samkomulagi um málalok.

Þeir sem fylgjast með íslenskum umræðum um bandarísk stjórnmál verða oft hissa á hversu einfeldningslegar þær geta verið. Frásagnir fréttamanna og „skýringar sérfræðinga“ verða stundum svo einhliða og barnalegar að það slær út hlutdrægnina og ósanngirnina sem oft birtist í kenningum um íslensk stjórnmál.

Nýliðnar deilur demókrata og repúblikana um fjárlög og fleira urðu íslenskum stjórnmálaskýrendum og fjölmiðlamönnum mikil uppspretta fréttaskýringa. Og þar var allt á eina lund. Það voru repúblikanar sem stefndu öllu á heljarþröm. Þeir vildu ekki samþykkja fjárlög. Þeir vildu ekki hækka „skuldaþak ríkisins“. Þeir stefndu efnahagskerfi heimsins í stórhættu, með kreddum sínum.

Verstir allra voru öfgamennirnir í „teboðshreyfingunni“, sem íslenska Ríkisútvarpið telur snaróða. Þeir eru svo miklir öfgamenn að „hófsamir repúblikanar“ komust ekki að.

Miðað við fréttaflutning var þetta mynd hins dæmigerða íslenska fréttamanns af deilunum í Bandaríkjunum.

Þingdeildirnar í Bandaríkjunum eru tvær, báðar lýðræðislega kosnar í almennum kosningum. Lög fá ekki gildi nema báðar deildir samþykki samhljóða frumvarp og forsetinn staðfesti það. Til að lög verði samþykkt verður meirihluti hvorrar þingdeildar því að laga sig að vilja meirihluta hinnar deildarinnar, því annars verður þrátefli.

Nú háttar svo til í Bandaríkjunum að demókratar eru í meirihluta í öldungadeildinni en repúblikanar í fulltrúadeildinni. Þurfa flokkarnir því að ná einhverju samkomulagi, ef ný lög eiga að verða samþykkt.
Íslenskir fréttamenn líta hins vegar svo á, miðað við fréttaflutning þeirra undanfarnar vikur, að repúblikanar eigi einfaldlega að samþykkja þau frumvörp sem demókratar vilja.

Meirihluti repúblikana í fulltrúadeildinni samþykkti ótal frumvörp um fjárlög ríkisins og sendi þau til öldungadeildarinn. Þau frumvörp voru öll felld í öldungadeild demókrata. Fjárlagatillögur repúblikana gerðu ráð fyrir því að umdeildum ákvæðum í nýjum heilbrigðislögum, sem kennd eru við Obama, yrði frestað í eitt ár. Það máttu demókratar ekki heyra minnst á og felldu allar tillögurnar.

Engu að síður telja fréttamenn að það séu repúblikanar sem séu ofstækismenn sem tefli öllu í hættu til að ná fram kreddum öfgamanna, en demókratar, þessir sem engar breytingar samþykkja, séu sanngjörnu mennirnir.

Ef það er nú rétt, að það hefði valdið efnahagsöngþveiti um allan heim ef ekki hefði náðst samkomulag, hvað segir það þá um Obama og félaga hans að þeir neituðu öllum tillögum repúblikana og kröfðust algerrar uppgjafar þeirra? Hefði ábyrgur forseti ekki gefið eitthvað eftir af eigin baráttumálum, til að forðast slíkt öngþveiti?

Demókratar og Obama eru svo ósveigjanlegir að þeir vilja frekar að ríkisstofnunum sé lokað um öll Bandaríkin og að hætt sé á efnahagsöngþveiti í heiminum vegna greiðslufalls Bandaríkjanna, en að gildistöku hluta umdeildrar löggjafar sé frestað tímabundið. Og fréttamenn eru sannfærðir um að repúblikanar séu öfgamenn en Obama fulltrúi nýrra vinnubragða.

Og svo leystust málin. Hvernig leystust þau? Jú, með því að repúblikanar gáfu eftir á öllum sviðum en Obama og demókratar ekki. Obama fékk allt sitt fram, því repúblikanar vildu frekar gefast sjálfir upp en að greiðslufall yrði á skuldum Bandaríkjanna.

Hvernig túlka fréttamenn þetta? Jú, sem „ósigur teboðshreyfingarinnar“. Hún „náði engu fram“.

Önnur fylkingin lagði fram ótal tillögur að fjárlögum. Hin felldi þær allar. Önnur fylkingin endaði á að hætta við allar kröfur sínar og leggja niður vopn. Hin gaf ekki neitt eftir.

Fréttamenn og „fréttaskýrendur“ eru sannfærðir um að önnur fylkingin sé full af öfgamönnum en hin sé ábyrg og hófsöm.