Laugardagur 19. október 2013

Vefþjóðviljinn 292. tbl. 17. árg.

Þau eru svo mörg dæmin um offorsið í skattheimtunni, og eitt þeirra var nefnt hér í gær af tölvufyrirtæki sem selja varð úr landi vegna atgangsins.

En af alþingi berast hins vegar nær eingöngu fréttir af því að þingmenn séu miður sín yfir því að lækka eigi eitt þrep tekjuskatts einstaklinga um 0,8%. Þeir koma í röðum fulltrúar vinstri flokkanna og telja slíka lækkun í raun vera útgjöld ríkisins.

Í Viðskiptablaðinu er rætt við framkvæmdastjóra lítils brugghúss og sagt frá afkomu félagsins.

Stærsti kostnaðarliður fyrirtækisins var áfengisgjald sem nam 11,4 milljónum. Fyrirtækið greiddi meira í áfengisgjald en laun á árinu en laun og launatengd gjöld námu samtals um 5,3 milljónum króna. Áfengisgjaldið nam samtals um 28,6% af útgjöldum fyrirtækisins.

Áfengisgjaldið þarf auk þess að greiða áður en innkoma af sölunni er komin í hús. Þegar Viðskiptablaðið spyr framkvæmdastjórann hvort hann sjái fram á að ný ríkisstjórn muni breyta þessu ástandi svarar hann:

Nei, þeir ætla að hækka þetta núna um áramótin.