Fötudagur 18. október 2013

Vefþjóðviljinn 291. tbl. 17. árg.

Meðal þess sem vinstristjórn leiddi yfir þjóðfélagið var upptaka eignaskatts. Og af því að ráðamenn voru einnig lýðskrumarar og þetta voru tímar æsinga og upphrópana, þá létu þeir skattinn ekki heita eignaskatt heldur „auðlegðarskatt“.

Meðal þess sem er ógeðfellt við slíkan skatt er að hann er lagður á fólk óháð tekjum þess og lausu fé. Maður getur átt eina verðmæta eign en lítið af peningum og hann getur ekki greitt skattinn nema selja eignina. Vinstrimenn sjá ekkert að þessu. Það er ein ástæðan fyrir því að þeir eru vinstrimenn.

Það er einnig algengt að vinstrimönnum þyki peningar betur komnir hjá ríkinu en borgurunum. Það sé hinn eðlilegi staður þeirra. Vinstrimenn flokka skattalækkanir sem ríkisútgjöld. Þeim finnst í fullri alvöru að það, að ríkið ákveði að taka ofurlítið minna úr vasa einhvers manns, sé í raun greiðsla ríkisins til þessa sama manns.

Maður var skattlagður. Svo kemur vinstristjórn og leggur á hann sérstakan tíu króna “skatt á ríka feita kalla”. Svo hrökklast vinstristjórnin frá, og þá koma aðrir til valda og þeir eru svo miklir hugsjónamenn að þeir lækka nýja aukaskattinn niður í níu krónur og eru dauðhræddir við öskurkórinn sem segir að nú sé verið að gefa ríkum feitum köllum peninga.

Einn af þekktari viðskiptamönnum landsins er Friðrik Skúlason, en hann hefur getið sér orð víða um heim á sínu sviði með tölvuvarnarforriti sínu. Hann og kona hans ráku fyrirtæki sem þau kenndu við Friðrik og var það í fremstu röð. Fyrir nokkru seldu þau fyrirtæki sitt til bandaríksks fyrirtækis. Friðrik hefur nú sagt frá skýringu þeirrar ákvörðunar.

Þau hjónin hafi ekki greitt sér arð úr fyrirtækinu heldur nýtt hagnað til að byggja fyrirtækið upp. Fyrirtækið hafi því verið verðmætt og á þau hafi verið lagður „auðlegðarskattur“ vegna eignar sinnar í því. Hafi hann því átt þá kosti að skuldsetja fyrirtækið til að geta greitt sér arð og borgað „auðlegðarskattinn“, að skera niður rekstur félagsins til að geta greitt arð fyrir skattinum, eða þá að selja félagið. Það hafi verið einfaldast. Eftir söluna voru nokkrar deildir lagðar niður eða fluttar úr landi og hér á landi misstu tuttugu manns vinnuna við þetta.

En vinstrimenn telja „auðlegðarskattinn“ alltaf jafn mikið réttlætismál og næstum eins áríðandi og að leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn í landinu.