Fimmtudagur 25. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 206. tbl. 17. árg.

Samtök iðnaðarins vekja athygli á margföldun kostnaðar við eftirlit með atvinnulífinu.
Samtök iðnaðarins vekja athygli á margföldun kostnaðar við eftirlit með atvinnulífinu.

Því hefur verið haldið nokkuð stíft fram að á árunum fyrir hrun bankanna hafi „eftirlitið brugðist“. Vefþjóðviljann langar til að bæta því við þessa kenningu að eftirlitsstofnanir ríkisins hafi virkað eins og við mátti búast. Já þær brugðust en átti einhver von á öðru?

Eftirlitsstofnanir sem eiga að koma í veg fyrir að fyrirtæki á markaði fari sér að voða eru að mestu gagnslausar af sömu ástæðu og menn vilja fremur hafa opin markað með einkafyrirtækjum en miðstýrðan áætlunarbúskap. Þrátt fyrir öll endurmenntunarnámskeiðin og meistaraprófsgráðurnar hefur enn ekki komið fram embættismaður sem getur sankað að sér samanlagðri þekkingu og væntingum fyrirtækja og neytenda. Á meðan þekkingin er dreifð um þjóðfélagið fer best á því að valdið til að taka ákvarðanir sé það einnig.

Eins og útgefandi Vefþjóðviljans hefur af og til leyft sér að vekja athygli á jókst kostnaður við eftirlit ríkisins með atvinnulífinu verulega á árunum fyrir hrun. 

Nú hafa Samtök iðnaðarins vakið athygli á því að kostaður við þetta eftirlit ríkisins hefur fjórfaldast á tíu árum. Eftirlitið sem brást hefur verið verðlaunað með auknu fjármagni!

Er þetta ekki kallað að henda góðum peningum á eftir slæmum?