Miðvikudagur 24. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 205. tbl. 17. árg.

Það er alveg galið að einn af hverjum 500 vinnandi mönnum starfi hjá ríkisútvarpi. Það mætti ætla af starfsmannamergðinni á Ríkisútvarpinu að það veiti lífsnauðsynlega þjónustu og landlægur skortur sé á útvarpsstöðvum sem senda útvarpsbylgjur endurgjaldslaust heim til fólks eða veita því fréttaþjónustu á netinu.

Við þetta undarlega ástand bætist svo að fréttastofa ríkisútvarpsins lætur fá færi ónýtt til að draga taum vinstrimanna og ESB sinna.

Oft er þetta ekki alveg augljóst. Eitt er sagt en annað ekki. Hér er eitt dæmi sem láðist að nefna á sínum tíma:

Fyrir almennar kosningar um gildi laga um ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans í apríl 2011 lýsti Eva Joly yfir andstöðu við ríkisábyrgðina. Joly hafði þó fram að því þótt aufúsugestur í Ríkisútvarpinu. En nú bar nýrra við.

Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti lýsti hins vegar yfir stuðningi við ríkisábyrgðina og Ríkisútvarpið sagði frá því í fréttatíma sínum og textavarpinu.