Föstudagur 26. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 207. tbl. 17. árg.

Nú ætla menn að reisa mosku í Reykjavík líkt og vænta mátti þegar nokkur hundruð manna söfnuður er til staðar. Vinstri flokkarnir, þessir sem sérstaklega segjast láta sér annt um kvenréttindi og virðingu samkynhneigðra, fagna því sérstaklega. Á nýlegum aðalfundi félags ungra vinstri grænna var sérstaklega ályktað um fögnuð vegna moskunnar. Og eru vinstrimenn þó ekki frægir fyrir almennan áhuga sinn á trúmálum.

Aðrir hafa lýst áhyggjum vegna moskunnar og hafa stór orð verið notuð á báða bóga.

Í Bóksölu Andríkis eru tvær bækur, þar sem íslamismanum í vestrænum þjóðfélögum eru gerð skil. 

Þetta eru bækurnar Dýrmætast er frelsið og Íslamistar og naívistar.

Í Dýrmætast er frelsið er fjallað um raunverulegan heim ótal margra innflytjenda í  Noregi. Kynjamisrétti, trúarofstæki, ofbeldi, nauðungarhjónabönd og jafnvel heiðursmorð, eru þar ótrúlega algeng, en yfirvöld líta undan. Þeir sem í orði kveðnu berjast fyrir mannréttindum og réttindum kvenna sérstaklega, þegja sem fastast því ok pólitíska rétttrúnaðarins er sterkt. Sláandi bók.

Í Íslamistum og naívistum er fjallað um íslamismann og hvernig margt í honum stangast á við frjálst þjóðfélag Vesturlanda. Í bókinni er reynt að sýna fram á að íslamistar stefna að því að skapa múslímsk hliðarsamfélög innan vestrænna samfélaga. Helsta stoð íslamista er naívistar, fólk sem heldur að með því að gefa eftir ýmis vestræn grundvallargildi megi friðmælast við íslamista. Höfundar eru tveir, annar landskunnur blaðamaður í Danmörku, hinn fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn jafnaðarmanna. Íslenskir jafnaðarmenn munu hins vegar ekki vilja lesa þessa bók.