Föstudagur 19. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 200. tbl. 17. árg.

Það er ekki aðeins vinstrislagsíðan á Ríkisútvarpinu sem hefur haft verulega skaðleg áhrif á íslenskt þjóðlíf. Ótrúlegum peningum er eytt í Efstaleiti á hverju ári. Vorið 2007 var Ríkisútvarpinu breytt í opinbert hlutafé, með vanhugsuðum lögum sem þyrfti að afnema. Í grein Óla Björns Kárasonar, hagfræðings og varaþingmanns, í Morgunblaðinu á miðvikudaginn, kom fram að uppsafnað tap Ríkisútvarpsins frá vorinu 2007 nemur nú 1.269 milljónum króna. Á þessum sama tíma hefur Ríkisútvarpið þó fengið rúmlega nítján milljarða króna frá skattgreiðendum með „útvarpsgjaldi“. Í apríl 2009 ákvað vinstristjórnin sem þá sat að breyta 562 milljóna króna skuld Ríkisútvarpsins við ríkið í hlutafé, en eigið fé Ríkisútvarpsins hafði þá rýrnað um 59 milljónir króna mánaðarlega frá apríl 2007 til ársloka 2008. Og á árinu 2007 og fram eftir árinu 2008 var ekki erfitt að afla auglýsinga.

Það verður að taka mjög harkalega í taumana í Ríkisútvarpinu. Hvernig halda menn að fréttamenn og álitsgjafar létu, ef einhver önnur ríkisstofnun ætti í hlut? Og ef það bættist við að starfsmenn þeirrar stofnunar krefðust þess að vera ósnertanlegir, ríki í ríkinu? Myndu fréttamenn ekki fjalla samfleytt um þá stofnun með spurningum um hvort stjórnendur hennar ættu ekki að sæta ábyrgð? Yrði ekki gerð krafa um algera uppstokkun á rekstri stofnunarinnar?

Það er með öðrum orðum búið að eyða 19 þúsund milljónum af skattfé að ógleymdum öllum auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins. Á þetta að halda svona áfram?

Hvað ætli til dæmis rekstur „fréttastofu“ Ríkisútvarpsins hafi kostað á þessum tíma? Er nú nauðsynlegt að segja útvarpsfréttir á klukkutímafresti frá morgni til miðnættis? Er nauðsynlegt að vera með tólf sjónvarpsfréttatíma á viku? Þarf að hafa alla þessa „fréttatengdu“ þætti? Þarf að færa sig líka yfir á netið? Þarf að halda úti textavarpi? Jafnvel þeir sem vilja að ríkið reki fréttastofu, geta þeir ekki fallist á að það megi gera með ódýrari þætti? 

Og á öðrum sviðum er líka bruðlað og bruðlað. Hversu margir æfingaleikir handboltalandsliðsins ætli hafi verið sendir út beint á síðustu árum? Það þarf að senda menn til að taka upp „helstu atriði“ í hverri einustu umferð í Íslandsmótinu í Körfubolta. Og auðvitað bæði í karla- og kvennaflokki, því ekki má gefa í skyn að íþróttaáhugamenn hafi meiri áhuga á leikjum annars kynsins en hins. Menn eru meira að segja farnir að senda erlenda tónleika út beint í útvarpi, því ekki geta áhugamenn um klassíska tónlist látið sér nægja upptökur af tónleikunum ef hægt er að fá þá senda út beint.

Ríkisútvarpið kostar skattgreiðendur alveg gríðarlegt fé. Á því verður að taka mjög fljótt. Með því að skera raunverulega niður í rekstri Ríkisútvarpsins má til dæmis lækka útvarpsgjaldið umtalsvert og það myndi bæta fjárhagsstöðu allra heimila landsins. Ekki síst þeirra efnaminni.