Laugardagur 20. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 201. tbl. 17. árg.

Óðinn Viðskiptablaðsins vakti athygli á því í pistli sínum í fyrradag að lífeyrissjóðir dragi verulega að laga stöðu sína að veruleikanum, sjóðirnir velti halla á undan sér í stað þess að draga úr réttindum. Með því eru sjóðirnir að færa fjármuni frá þeim sem eru enn að greiða iðgjöld til þeirra sem eru komnir á lífeyrisaldur, frá ungu sjóðsfélögunum til hinna eldri.

Hins vegar má velta fyrir sér hvort FME sé ekki alltof undanlátssamt að leyfa lífeyrissjóðunum að vera með halla ár eftir ár. Það er skylduaðild að lífeyrissjóðunum og neikvæð tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs felur í sér ranglæti gagnvart ungu fólki sem er neytt til að greiða í hann. Hallinn þýðir að þeir sem eiga réttindi eða eru að fá greitt út  úr sjóðunum fá of mikið á kostnað þeirra sem yngri eru. Neikvæð staða er ígildi skattlagningar á þá sem eru skyldaðir til að greiða í  lífeyrissjóðina, skattlagning sem stenst ekki stjórnarskrá.

En þetta er þó í ágætu samræmi við stefnumörkun nýrrar ríkisstjórnar sem nýverið hóf að greiða 67 ára gömlum forstjórum og stóreignamönnum svokallaðan grunnlífeyri úr tómum ríkissjóði.