Miðvikudagur 22. maí 2013

Vefþjóðviljinn 142. tbl. 17. árg.

Haldið er upp á 10 ára afmæli 90% lánanna með pönnukökum, vöfflum, hverabrauði og nýjum kraftaverkum Framsóknarflokksins fyrir íbúðaeigendur.
Haldið er upp á 10 ára afmæli 90% lánanna með pönnukökum, vöfflum, hverabrauði og nýjum kraftaverkum Framsóknarflokksins fyrir íbúðaeigendur.

Skuldaleiðréttingarsjóður! 

Formaður Framsóknarflokksins var að átta sig á því, sem þurfti þó ekki doktorspróf til, að hrægammarnir vilja ekki endilega láta peninga af hendi eins og skot. Og um leið er búið að setja ákvæði um þennan nýja framsóknarsjóð í ríkisstjórnarsáttmála sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að. Alveg um leið.

Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Eru menn alveg vissir um að nú sé helst þörf á nýjum opinberum framsóknarsjóði sem véli um persónuleg fjármál fólks?

Íbúðalánasjóður Framsóknarflokksins hafði forgöngu um að fólk skuldsetti sig helst ekki minna en 90%. Sjóðurinn gerði sjálfan sig gjaldþrota í leiðinni og skattgreiðendur fengu tugmilljarða reikning og hafa ekki bitið úr nálinni.

En vissulega er það ein leið til að halda upp á 10 ára afmæli 90% lánanna að endurtaka mistökin.