Mánudagur 20. maí 2013

Vefþjóðviljinn 140. tbl. 17. árg.

Hvernig er hægt að leiðrétta lán sem er reiknað rétt?
Hvernig er hægt að leiðrétta lán sem er reiknað rétt?

Fjölmiðlar sem vilja vera óhlutdrægir í fréttaflutningi þurfa margs að gæta. Ónákvæmt orðalag getur verið til þess fallið að gefa áheyrendum ranga mynd af hlutunum og stundum um grundvallaratriði. Og stundum er ekki ljóst hvort ónákvæmnin er gerð með vilja eða ekki. 

Á síðustu árum hefur orðið „þjóðareign“, verið ítrekað notað um það sem í raun er ríkiseign. Áróðursmenn vita að í huga margra hefur „þjóðin“ annan blæ en „ríkið“ og þess vegna segjast þeir berjast fyrir „eignarrétti þjóðarinnar“ á því sem þeir í raun vilja að ríkið sölsi undir sig.

Þetta er hins vegar fremur dæmi um áróður en ónákvæmni.

En hvað á að segja um sívaxandi notkun orðsins „leiðrétting“? Fréttamenn tala um að þessi eða hin stéttin krefjist „launaleiðréttingar“, þegar ekki er annað á ferð en hefðbundin krafa um launahækkun. Það þarf ekki að „leiðrétta“ neitt, svo lengi sem laun eru í samræmi við gildandi kjarasamninga. Hvernig er hægt að leiðrétta það sem ekki er rangt?

Á síðustu vikum hafa sumir fréttamenn verið mjög ákafir í tali sínu um „leiðréttingu skulda heimilanna“. Þó hafa þeir ekki nefnt nokkurt dæmi um að rangar skuldir neins. Eru ekki skuldir flestra nákvæmlega í samræmi við þá samningsskilmála sem þeir gengust undir? Hvernig á að „leiðrétta“ lán, ef það er reiknað nákvæmlega í samræmi við skilmálana?

Þegar fréttir snúast um það að hugsanlega verði skattfé notað til að greiða inn á höfuðstól sumra lána, hvers vegna er sú aðgerð þá kölluð „leiðrétting“? 

Er það vegna þess að enginn getur verið á móti „leiðréttingu“? Leiðrétting hlýtur að snúast um að leiðrétta villu, til dæmis rangan útreikning. Það að ríkið komi og greiði inn á höfuðstól rétt reiknaðra lán einhverra einstaklinga er ekki leiðrétting. Það er einfaldlega allt önnur aðgerð. Menn geta verið hlynntir henni eða andvígir, talið hana skynsamlega eða heimskulega, en hún er ekki „leiðrétting“ svo lengi sem eftirstöðvar, afborganir og höfuðstóll voru rétt reiknuð í samræmi við skilmála.

Fréttamenn sem kalla slíkar aðgerðir „leiðréttingu“, eru komnir í áróður.