Helgarsprokið 19. maí 2013

Vefþjóðviljinn 139. tbl. 17. árg.

Þegar stjórn Listahátíðar í Reykjavík hafði tvö ár til að velja atriði á hátíðina vandaði hún valið. Þjóðviljinn gerði atriði Min Tanaka á listahátíð árið 1980 góð skil.
Þegar stjórn Listahátíðar í Reykjavík hafði tvö ár til að velja atriði á hátíðina vandaði hún valið. Þjóðviljinn gerði atriði Min Tanaka á listahátíð árið 1980 góð skil.

Þessa dagana er rekin listahátíð í Reykjavík á kostnað skattgreiðenda. Eitt árið enn. Fyrstu fjörutíu árin eða svo var hátíðin haldin annað hvert ár, en fyrir nokkrum árum nægði það auðvitað ekki lengur og síðan er hún haldin á hverju einasta ári. Það eru Reykjavíkurborg og íslenska ríkið sem standa að hátíðinni, eins og það heitir, en í því felst að skattgreiðendur borga brúsann en ráðamenn mæta á opnanir og fá af sér myndir.

Allir vita að ríkissjóður stendur illa, nú aðeins fáum árum eftir að hann var skuldlaus í erlendri mynt. En þrátt fyrir slæma stöðu ríkissjóðs tala stjórnmálamenn mikið um verkefni sem ráðast verði í, en minnast ekki á neitt einasta sem megi sleppa eða eyða minna fé í.

Lítið dæmi er Listahátíðin. Hvernig ætli standi á því að ekki einn einasti stjórnmálamaður stingi upp á að hún verði á næstunni haldin annað hvert ár, en ekki á hverju ári? Það væri þó ekki „verra“ heldur en dugði áratugum saman og alveg þar til fyrir örfáum árum. Og kostnaðurinn bætist auðvitað við brjálæðisleg útgjöld vegna tónlistarhallarinnar sem var kreist út úr skattgreiðendum, og gríðarleg önnur menningarútgjöld sem aldrei virðist mega skera niður að neinu gagni. 

Einn þingmaður á síðasta þingi leyfði sér að efast um að listamenn á starfslaunum væru allir að sinna merkilegu starfi. Fyrirlitningin sem hann fékk var næstum því áþreifanleg.

Nú veit Vefþjóðviljinn vel að það hvort Listahátíð er haldin á hverju ári eða annað hvert ár ræður ekki úrslitum um hag skattgreiðenda í landinu og útsvarsgreiðenda í Reykjavík. En ákvörðun um þetta er að vissu leyti táknræn.

Listahátíð var alltaf haldin annað hvert ár. Skyndilega opnuðust hins vegar flestar gáttir opinberra sjóða og þá dugði auðvitað ekki minna en að skattgreiðendur borguðu slíka hátíð á hverju ári. En nú er staða ríkissjóðs allt önnur og verri en áður var. Þá er spurningin hvort ráðamenn sýna að þeim sé staða ríkissjóðs og borgarsjóðs raunverulega ljós og að þeir átti sig á því að nauðsynlegt er að skera mjög verulega niður fjölmargt af því sem einhverja langar eflaust til að fá gert á kostnað skattgreiðenda.

Það er táknrænt svar við þeirri spurningu hvort fyrirkomulagi Listahátíðar verður á ný breytt til þess horfs sem var áratugum saman, eða hvort áfram verður haldið eins og ekkert hafi gerst. 

Það verður horft til þess hvernig ný stjórnvöld í landinu taka á þessu máli og mörgum öðrum. Auðvitað eru vonirnar ekki miklar. Fáir ef nokkrir væntanlegra ráðherra, hvaða flokkar sem það nú verða sem mynda stjórn, hafa nokkurn tíma getið sér orð fyrir að bera hag skattgreiðenda fyrir brjósti. Fáir þeirra hafa getið sér orð fyrir að berjast gegn dýrum gælumálum eða fyrir raunverulegum skattalækkunum. Fæstir þeirra ef nokkrir hafa nokkurn tíma tekið slíkan slag fyrir skattgreiðendur. 

En nú fá þeir eitt tækifæri. Það er ákaflega brýnt að þeir noti það tækifæri skattgreiðendum í hag, en láti áhugamál þrýstihópanna lönd og leið.

Gleðilega hvítasunnu.