Laugardagur 18. maí 2013

Vefþjóðviljinn 138. tbl. 17. árg.

Nú þegar lagaleg sérstaða samkynhneigðra heyrir að mestu leyti sögunni til kæmi á óvart ef krafist væri sérstakra stjórnarskrárákvæða um málefni þeirra.
Nú þegar lagaleg sérstaða samkynhneigðra heyrir að mestu leyti sögunni til kæmi á óvart ef krafist væri sérstakra stjórnarskrárákvæða um málefni þeirra.

Það er vart nokkur Íslendingur sem andmælir því lengur að samkynhneigðir eigi að njóta réttinda á við aðra landsmenn. Og það gera samkynhneigðir blessunarlega á Íslandi í öllum meginatriðum. 

Í fréttum í gær sagði frá því að Ísland væri í 10. sæti á lista Evrópusamtaka hinsegin fólks í árlegri úttekt á stöðu mannréttinda hinsegin fólks. Ísland er þar með væntanlega á topp 10 í heiminum á þennan mælikvarða.

Rætt var við Önnur Pálu Sverrisdóttir formann Samtakanna 78 í Ríkisútvarpinu að þessu tilefni. 

Stjórnarskráin okkar tekur auðvitað alls ekki á neinn hátt á málefnum hinsegin fólks, berum orðum að minnsta kosti, og svo til dæmis vantar aðgerðaáætlun, svona stefnu gegn hatursorðræðu og hatursglæpum. Svo vantar líka allsherjar mannréttindastofnun á Ísland, fólk heldur kannski að Mannréttindaskrifstofa Íslands sé sú stofnun en hún er rekin af frjálsum félagasamtökum.

Ef að það er stefna Samtakanna 78 að hinsegin fólk njóti sömu stöðu í hvívetna og aðrir landsmenn hvers vegna ætti stjórnarskráin að taka sérstaklega á málefnum samkynhneigðra? Hvað ætti að standa „berum orðum“ um „málefni hinsegin fólks“ í stjórnarskránni?

Á ekki stjórnarskráin einfaldlega að tryggja öllum landsmönnum sömu mannréttindin? Eins og segir í nú þegar í stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu sinnar. Og eru ekki eignarréttur og tjáningarfrelsi homma alveg eins og annarra? Og friðhelgi heimilis lesbía sú sama og annarra?

Varla eru Samtökin 78 farin að sakna sérstöðunnar sem þau hafa barist gegn með svo góðum árangri?