Föstudagur 17. maí 2013

Vefþjóðviljinn 137. tbl. 17. árg.

Þegar Ísland lenti í efnahagsþrengingum árið 2008 brugðust önnur lönd misjafnlega við. Svokallaðir frændur á Norðurlöndum reyndust auðvitað engir vinir í raun og ekki þarf að rifja upp hvernig Bretar komu fram. Hollendingar gerðu síðar sitt til að valda Íslendingum vandræðum eins og flestir muna.

Á hinn bóginn mega Íslendingar minnast annarra sem sýndu þeim vináttu og stuðning. Pólverjar og Færeyingar réttu Íslandi hjálparhönd og það óbeðnir. Gaman væri ef Ísland fengi einhvern tíma færi á að endurgjalda það, sérstaklega Færeyjum, hinum fámenna granna.

Ekki hugsa allir eins hlýlega til Færeyinga. Nú hefur sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagt til að eyjarnar verði beittar efnahagsþvingunum vegna deilna um síld. Bretar settu Ísland á lista með alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og nú ætlar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að beita Færeyinga efnahagsþvingunum.

Það væri nú aldeilis gaman ef Ísland væri aðili að Evrópusambandinu og myndi sem ESB-ríki byrja að beita Færeyinga efnahagsþvingunum. Það væri viðeigandi þakklætisvottur Íslendinga fyrir hjálparhöndina sem rétt var haustið 2008.