Vefþjóðviljinn 120. tbl. 17. árg.

Sigurður Ingi Jónsson núverandi varaformaður og Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins vildu höfða sakamál gegn fjórum ráðherrum fyrir Landsdómi meðal annars fyrir þá sök að ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir til að Icesave reikningar Landsbankans væru í útibúi í stað dótturfélags. Um það lögðu þau fram tillögu á Alþingi ásamt þremur öðrum þingmönnum. Pólitísk ákæra gegn einum ráðherra náði fram að ganga.
Það er út af fyrir sig undarlegt að framsóknarmennirnir Eygló og Sigurður Ingi hafi viljað ákæra fyrir þessa sök því Framsóknarflokkurinn var réttilega þeirrar skoðunar að Íslendingar bæru enga ábyrgð á Icesave reikningunum.
En hver var viðskiptaráðherra og með meginábyrgð á bankamálum Íslendinga árið 2006 þegar Icesave reikningarnir voru stofnaðir í útibúi Landsbankans í Bretlandi?
Það voru tveir menn viðskiptaráðherrar árið 2006. Valgerður Sverrisdóttir (1999-2006) og Jón Sigurðsson (2006-2007).
Hvorugt þeirra sætti pólitískri ákæru Eyglóar og Sigurðar Inga fyrir Landsdómi.