Miðvikudagur 1. maí 2013

Vefþjóðviljinn 121. tbl. 17. árg.

Those were the days. Frá stjórnarmyndun árið 1987.
Those were the days. Frá stjórnarmyndun árið 1987.

Í alþingiskosningunum 1991 vann Sjálfstæðisflokkurinn mikinn sigur, fór úr 27,2% atkvæða í 38,6% og var að sjálfsögðu langstærsti flokkur landsins. Ekki voru þó allir við að hann myndaði ríkisstjórn.

Í sömu kosningum fór Alþýðubandalagið úr 13,3% í 14,4%. Formaður þess lýsti Alþýðubandalagið mikinn „sigurvegara“ og að nú yrði að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar.

Formaður Alþýðubandalagsins gekk svo langt að leggja til að formaður Alþýðuflokksins, sem í sömu kosningum hafði farið úr 15,2% í 15,5% atkvæða, yrði forsætisráðherra, svo hægt yrði að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn.

Þegar Alþýðuflokkurinn féll ekki fyrir þessum gylliboðum skipulagði formaður Alþýðubandalagsins hringingar á skrifstofu Alþýðuflokksins, þar sem hringjendur sögðu skrifstofufólki að þeir væru reiðir kratar sem tækju ekki í mál að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn.

Þessi formaður Alþýðubandalagsins taldi alls ekki að langstærsti flokkur landsins, sem auk þess hafði bætt við sig verulegu fylgi í kosningunum,  9,4% atkvæða, fengi að mynda ríkistjórn. Af því að þetta var Sjálfstæðisflokkurinn þá kom það ekki til greina.

Svo finnst einhverjum fréttnæmt að Ólafur Ragnar Grímsson veiti formanni Sjálfstæðisflokksins ekki „umboð til stjórnarmyndunar“. 

Eins gott að „stjórnarmyndunarumboð“ hefur ekki þá þýðingu sem fréttamenn virðast halda. Sá sem hefur stuðning 32 eða fleiri þingmanna að baki sér, hann myndar einfaldlega ríkisstjórn. Um það ræður forseti Íslands sem betur fer engu.