Mánudagur 29. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 119. tbl. 17. árg.

Alþingiskosningar kalla á Andríkispunkta

•         Vinstristjórnin hafði fengið umboð til að leiða landið eftir bankahrun og þjóðfélagsólgu sem fyrst og fremst var beint að öðrum en henni. Hún fór strax þá leið að kljúfa landsmenn með því að sækja um ESB-aðild sem enginn vill nema Samfylkingin. Svo var ráðist að stjórnarskránni, næst sjávarútveginum og annað var eftir þessu. Eftir fjögur ár af slíku er fylgi stjórnarflokkanna farið ur 51,5% í 23,8%. Eða eins og einhver myndi auglýsa: Þannig… stjórna jafnaðarmenn.

•         Hvernig á að meta árangur ríkisstjórnar? Ein leið er að skoða hvaða dóm landsmenn hennar hafa kveðið upp í kosningum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 til 2009 var ekki mjög vel heppnuð stjórn. En í kosningunum 2009, eftir óeirðir og bankahrun, voru þeir flokkar ekki óvinsælli en svo að þeir fengu samtals 36 þingmenn en allir aðrir flokkar samtals 27. Nú hljóta fráfarandi stjórnarflokkar samtals 16 þingmenn en aðrir samtals 47. 

•         Kosningarnar 2009 eru verstu kosningar í sögu Sjálfstæðisflokksins og haldnar við einstæðar aðstæður þar sem öll spjót stóðu á flokknum, sönn sem login. Engu að síður fékk Sjálfstæðisflokkurinn  jafn marga þingmenn 2009 og Samfylkingin og Vinstrigrænir fá nú. Samanlagt. 

•         Aldrei í sögunni hefur orðið eins mikil endurnýjun á þingi og í kosningunum 2009. Og aldrei í sögunni hefur neitt þing notið jafn lítils trausts í könnunum og það þing sem kosið var þá. Það er ekki endilega æskilegt að fá „nýtt fólk“. 

•         Ríkisstjórnin kynnti sig í upphafi sem „norræna velferðarstjórn“. Þegar leið á kjörtímabilið þorðu varla ráðherrarnir sjálfir að nota orðið „velferðarstjórn“. Það sýnir betur en margt annað hvernig stjórninni tókst til.

•         Fleira hvarf úr umræðunni en „norræn velferðarstjórn“. Árum saman höfðu lýðskrumarar talað um að fá ætti „fagmenn“ í ráðherrastóla. „Ópólitíska sérfræðinga“. Vinstristjórnin gerði tilraun með það í eitt og hálft ár. Eftir það hefur enginn lagt til að slíkt verði reynt aftur. Í kosningabaráttunni nú var það hvergi nefnt. Ekki einu sinni áköfustu lýðskrumsframboð minntust á slíkt. 

•         Stjórnarliðar tala hástöfum um hversu slæmu búi þeir hafi tekið við. Þeir tóku raunar alls ekki við slæmu búi pólitískt séð. Ríkisstjórnin tók við völdum skömmu eftir bankahrun, þegar í nokkra mánuði hafði verið haldið úti ofsafenginnni þjóðfélagsumræðu, hamslausum áróðri, ofstopa og jafnvel ofbeldi sem fyrst og fremst var beint gegn pólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar. Slíkar aðstæður veittu ríkisstjórninni auðvitað gríðarlegt pólitískt forskot á andstæðinga sína. Öllu því tókst ráðherrunum að glutra niður.

•         Nú hafa menn mikinn áhuga á því „hverjum forseti veiti stjórnarmyndunarumboðið“. Ísland er þingræðisríki og það er ekki forseta Íslands að hafa persónulegar skoðanir á því hvernig ríkisstjórn eigi að vera við völd eða hverjir skuli skipa hana eða leiða. Því ráða þingmenn og frumkvæði þar eiga forystumenn flokkanna. Geti einhver stjórnmálaleiðtogi tryggt sér stuðning meirihluta þingmanna til stjórnarforystu þá skipar forseti hann forsætisráðherra. Persónulegar skoðanir forsetans á því skipta þar ekki máli. Hugtakið „stjórnarmyndunarumboð“ er raunar hvergi í stjórnarskrá landsins og bæri forseta einfaldlega að skipa þann mann forsætisráðherra sem meirihluti þingmanna benti á til embættisins, hver svo sem væri „með umboðið“ á þeim tíma.

•         Árni Páll Árnason einvaldur Samfylkingarinnar segir við BBC að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi nú eftir kosningarnar „nákvæmlega ekki neitt“ umboð til að breyta þjóðfélaginu. Nú hefur raunar ekkert komið fram um að þessir flokkar hyggi á sérstakar þjóðfélagsbreytingar, en þessi orð Árna Páls leiða hugann að öðru. Þessir tveir flokkar eru saman með meirihluta þingmanna og greiddra atkvæða í þingkosningum. Þær kosningar eru haldnar að loknu fjögurra ára kjörímabili. Vinstristjórnin sem nú hrökklast frá völdum náði meirihluta í óvæntum alþingiskosningum sem haldnar voru í skyndi eftir upplausn, bankahrun og gríðarlega taugaspennu í þjóðfélaginu. Við þær aðstæður var fólk látið greiða atkvæði. Ríkisstjórnin hikaði hins vegar ekki við að líta svo á að hún hefði fengið umboð til byltingar á öllum sviðum þjóðlífsins. Jafnvel stjórnarskráin var ekki látin í friði. Flokkur sem í kosningum í apríl var algerlega á móti aðild að Evrópusambandinu sótti um inngöngu í júní. Og svo koma kratarnir núna og segja að aðrir hafi „nákvæmlega ekki neitt“ umboð til breytinga.

•         Margir velta fyrir sér hver verði næsti forsætisráðherra og eru þar helst nefndir formaður Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokks landsins, og formaður Framsóknarflokksins, næst stærsta flokksins. Álitsgjafar og fjölmiðlamenn reynast alveg óvænt vera þeirrar skoðunar að formaður Sjálfstæðisflokksins eigi þar síður að koma til álita. En ef horft væri á málið frá sjónarhóli formanns Framsóknarflokksins, hvaða sjónarmið ættu þá að ráða mestu? Persónulegur metnaður kann auðvitað að mæla með því að hann reyni að verða sjálfur skipaður forsætisráðherra, og slíkt væri mannlegt og skiljanlegt. En hvað væri pólitískt skynsamlegt? Framsóknarflokkurinn lofaði gríðarlegum fjáraustri til skuldara, eins og menn þekkja. Ríkisstjórn, sem flokkurinn á aðild að, hlyti að reyna að standa við eitthvað af þeim óljósu loforðum. Ef slíkt verður gert og ef það tekst vel, þá verður Framsóknarflokknum þakkað það, því allir munu tengja flokkinn við loforðið. Skiptir þar engu máli hvaða ráðuneyti flokkurinn fer með. En ef þetta annað hvort verður ekki gert, eða verður gert en þykir takast illa, er þá skynsamlegt að fara með forsætisráðuneytið? Hvernig ætla menn við þær aðstæður að kenna samstarfsflokknum um?

•         Þegar menn velta fyrir sér hugtakinu „sigurvegarar kosninganna“ eða þá því hversu mikið „umboð“ hver flokkur hafi fengið í kosningunum, þá gera margir þá skyssu að bera kosningaúrslit saman við síðustu kosningar á undan. Þær hafa ekkert með „sigurvegara kosninganna“ að gera. Ef menn vilja kalla einhvern „sigurvegara“ kosningar, þá horfa menn á úrslit þeirra kosninga, en ekki síðustu kosningar á undan. Ólafur Ragnar Grímsson var sigurvegari síðustu forsetakosninga á Íslandi, af því að hann hlaut fleiri atkvæði en Þóra Arnórsdóttir og þau hin. Hann var ekki „ósigurvegari kosninganna“, þó hann hafi fengið lægra hlutfall atkvæða en í síðustu kosningum á undan, þegar hann keppti við Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon. Barack Obama var sigurvegari síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum af því einu að hann fékk fleiri kjörmenn en Romney. Það skiptir engu máli hversu marga kjörmenn hann fékk þegar hann sigraði McCain fjórum árum áður. Það skiptir engu máli um „umboð“ Obama, hvort hann fékk meira eða minna fylgi en Obama fjórum árum áður. Það eina sem skiptir máli er hvaða umboð hann fékk núna.

•         Framsóknarmenn, svo dæmi sé tekið, fengu með sama hætti nákvæmlega það umboð sem felst í þeim atkvæðum sem þeir fengu nú um helgina. Þar skiptir engu máli hvað þeir fengu fyrir fjórum árum. Ef þeir hefðu til dæmis fengið þrjátíu prósent fyrir fjórum árum, þá væri umboðið, sem þeir fengu nú, ekkert minna fyrir vikið. „Sigurvegari“ kosninga er sá sem fær flest atkvæði í kosningunum. Aðrar kosningar skipta þar engu máli. 

•         Ef sömu flokkar bjóða fram eftir fjögur ár, og allir fá sama fylgi og nú nema „Píratar“ fá þrjá menn en Björt framtíð missir þrjá, þá dytti engum í hug að kalla „Pírata“ sigurvegara kosninganna og að niðurstöðurnar væru ákall þjóðarinnar um allt verði opinbert á netinu nema tölvugögn Birgittu Jónsdóttur.

•         Það er til dæmis alveg fráleitt að segja að þjóðin kalli eftir tillögum einhvers flokksins, af því að fylgi hans sé nú svo og svo miklu meira en það hafi verið fyrir fjórum árum. Hér skiptir einfaldlega máli hversu margir greiddu flokknum atkvæði núna. Þunginn í þeim atkvæðum verður hvorki meiri né minni við það að kannað sé hversu mörg atkvæði sami flokkur hafi fengið fyrir fjórum árum. Eða fyrir sex árum, átta árum, tólf árum, sextán árum, tuttugu árum eða meðaltali þessara ára. 

•         Eins skipta skoðanakannanir hér engu máli. Árangur Bjartrar framtíðar verður ekkert verri við það að skoðanakannanir hafi gefið til kynna miklu meira fylgi fyrir nokkrum vikum. Niðurstaðan er einfaldlega að svo og svo margir kjósendur greiddu flokknum atkvæði, og umboð hans á að meta eftir því.

•         Með þessu er ekki sagt að menn þurfi að loka augunum fyrir breytingum á fylgi. Slíkar breytingar eru vísbending um það hversu sáttir stuðningsmenn flokks eru við framgöngu sinna manna árin á undan og hvort þeir, sem ekki hafi stutt flokkinn áður, sjái nú ástæðu til slíks. Fylgishrun er til dæmis skýr vísbending um að þorri kjósenda flokks telji flokkinn ekki hafa risið undir því trausti sem honum hafi verið sýnt.

•         Stjórnarliðar og álitsgjafar þeirra henda nú á lofti ummæli „erlendra fjölmiðla“ um niðurstöður kosninganna. En hvaðan ætli hinir „erlendu fjölmiðlar“ hafi þessar túlkanir sínar? Ætli það geti verið að þeir treysti á stutt viðtöl við íslenska álitsgjafa? Eða hápólitíska innlenda fréttaritara sína?