Þriðjudagur 23. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 113. tbl. 17. árg.

Frá Reykjavík.
Frá Reykjavík.

Í þingkosningunum á laugardaginn er mikilvægt að kjósendur hafi leyst ákveðna þraut þegar þeir koma á kjörstað. Til eru nokkrar útgáfur af þrautinni góðu:  

* Maður hefur nurlað saman 30 þúsund krónum til kaupa á reiðhjóli. Hann sér reiðhjól í verslun sem kostaði 45 þúsund krónur en fæst nú á útsölu á 30 þúsund krónur. Hann kaupir hjólið hiklaust. Hvernig ætti hann að eyða þeim 15 þúsund krónum sem hann græddi bersýnilega á kaupunum?

* Konu tekst með sparsemi að lækka yfirdráttinn hjá sér úr 45 þúsund krónum í 30 þúsund. Hvað á hún eiginlega að gera við þessar 15 þúsund krónur sem allir hljóta að sjá að hún hefur nú eignast til frjálsrar ráðstöfunar?

* Ríkissjóður nokkur skuldar 1.500 milljarða og hyggst sækja sér 300 milljarða til þeirra sem voru slík illmenni að lána bönkum landsins fé sem tapaðist að mestu. Takist það skuldar ríkissjóðurinn 1.200 milljarða. Hvernig eiga stjórnmálamenn að útdeila þessum peningum?