Mánudagur 22. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 112. tbl. 17. árg.

Vefurinn  snjohengjan.is er auglýstur víða. Þar er bent á með nokkrum alvöruþunga að íslenskar krónur í eigu erlendra aðila myndu að öllum líkindum leita yfir í aðra mynt ef gjaldeyrishöftum yrði aflétt. Ehh, það var jú einmitt ástæðan fyrir því að menn töldu þörf á þessum höftum á sínum tíma. Ekki alveg nýjar fréttir.

Snjóhengjumenn vekja svo sérstaka athygli á því að krónur í eigu kröfuhafa föllnu bankanna séu um 800 milljarðar, sem er einnig þjóðkunn staðreynd. Og skora svo á stjórnmálamenn að reyna að semja um hlut í þessum eignum, sem allir stjórnmálamenn landsins hafa verið sammála um árum saman.

Hér má hins vegar sjá samanburð á krónueignum í þrotabúum föllnu bankanna og skuldum hins opinbera; snjóhengjuna við hlið skuldafjallsins.

Jafnvel þótt tækist að breyta allri snjóhengjunni í rjómatertu fyrir ríkissjóð yrði ríkið áfram stórskuldugt.
Jafnvel þótt tækist að breyta allri snjóhengjunni í rjómatertu fyrir ríkissjóð yrði ríkið áfram stórskuldugt.

Jafnvel þótt hið opinbera næði öllum krónueignunum – allri snjóhengjunni  –  af kröfuhöfum föllnu bankanna myndi það áfram vera stórskuldugt. Skuldir ríkisins myndu vissulega minnka umtalsvert og full ástæða væri til að fagna því. En það væri til að mynda ekki komið í nokkra stöðu til þess að fara í „almenna skuldaniðurfærslu“ fyrir mörg hundruð milljarða króna líkt og Dögun og fleiri loforðaflaumsframboð hafa boðað.