Vefþjóðviljinn 114. tbl. 17. árg.
Stjórnmálamenn lofa nú og lofa. Þeir virðast taka undir allar kröfur sem einhvers staðar hafa heyrst. Og allt er þetta sagt réttlætismál. Alls staðar á að dæla peningum úr ríkissjóði.
Að vísu eru það svo að venjulegt fólk þarf að greiða reikningana, enda borga allir landsmenn skatta.
Hugsun stjórnmálamannanna virðist vera sú, að lofa að uppfylla allar útgjaldaóskir í þeirri von að hver kjósandi einblíni á nákvæmlega sitt eigið baráttumál, en taki ekki eftir að hann þarf að borga fyrir öll hin.
Sá sem er kominn í skuldir vegna húsnæðisláns, hann hugsar um það eitt að Framsóknarflokkurinn noti ríkissjóð til að borga inn á lánið hans.
Sá sem er á námslánum hugsar um það eitt að Vinstrigrænir noti ríkissjóð til að afskrifa hluta af námsláninu hans.
Tekjuhái ellilífeyrisþeginn hugsar um það eitt að Framsóknarflokkurinn komist til valda og hætti að skerða ellistyrkinn hans vegna háu teknanna.
Fimm barna faðirinn hugsar um það eitt að Vinstrigrænir láti ríkissjóð hækka barnabæturnar hans.
Og þannig má telja næstum endalaust.
Og allt er þetta sagt „réttlætismál“. Það er réttlæti að Pétur verði skattlagður til að borga fyrir Pál, eitthvað sem Páli finnst alveg gríðarlega ósanngjarnt að hann þurfi að borga sjálfur. Hann hafði kannski alls ekki gert ráð fyrir því að þurfa að borga það, og þá er kominn forsendubrestur og þar með réttlætismál að skattgreiðendur taki á sig.
Öll þessi „réttlætismál“ hafa þann galla, að reikningurinn fyrir gæðunum er sendur til einhvers annars en nýtur þeirra mest.
Ef menn vildu hins vegar leita að réttlætismáli, þá væri það lækkun einhverra þeirra skatta sem velferðarstjórnin hefur hækkað á síðustu árum.
Skattalækkun snýst ekki um að taka úr ríkissjóði og færa einhverjum hópi. Skattalækkun snýst um að ríkissjóður taki aðeins minni hlut eigna fólks af því.
Og skattalækkun gerir fleira.
Lækkun virðisaukaskatts, tolla og vörugjalda stuðlar til dæmis að lækkun vöruverðs.
Og hvað þýðir lækkun vöruverðs?
Jú, lækkun vísitölunnar.
Og hvað þýðir það?
Jú, lækkun verðtryggðra lána.
Er það ekki heilbrigðari leið til að bæta stöðu fólks, en að taka hundruð milljarða úr skuldsettum ríkissjóði og dreifa til hóps manna, sem margir eru mun tekjuhærri og eignameiri en þeir sem ekkert eiga að fá við sama tækifæri?
Ef það er nú svo, að ríkissjóður mun hafa hundruð milljarða króna handbæra til að borga inn á húsnæðisskuldir einhverra manna, væri þá ekki heilbrigðara að lækka skatta um hundruð milljarða króna? Yrði það ekki gríðarleg vítamínsprauta fyrir fólk af öllum stéttum og fyrir atvinnulífið?