Mánudagur 15. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 105. tbl. 17. árg.

Jóhanna Sigurðardóttir kannar heiðursvörð kínverska alþýðuhersins á Torgi hins himneska friðar.
Jóhanna Sigurðardóttir kannar heiðursvörð kínverska alþýðuhersins á Torgi hins himneska friðar.

Jóhanna Sigurðardóttir, sem enn er forsætisráðherra Íslands þökk sé íslenskum kjósendum vorið 2009, og Össur Skarphéðinsson, litlu síðri utanríkisráðherra, eru nú stödd í Kínverska alþýðulýðveldinu að gera viðskiptasamning við kommúnistastjórnina þar.

Í dag mun Jóhanna hafa kannað heiðursvörð kínverska hersins á Torgi hins himneska friðar, í fylgd ráðamanna Kommúnistaflokksins. Varð henni ekki meint af.

Íslenska ríkisútvarpið hafði eftir sigurreifum Össuri Skarphéðinssyni að Evrópulöndin stæðu í biðröð eftir að fá að gera fríverslunarsamninga við Kína. Þeim hefði hins vegar ekki orðið að ósk sinni, ólíkt Íslandi.

Fréttamaður mun ekki hafa nefnt við Össur að það er ein ástæða fyrir því að Ísland getur gert viðskiptasamninga við önnur ríki, án þess að spyrja nokkurn um leyfi: Ísland er fullvalda ríki utan Evrópusambandsins. 

Í tilkynningu frá íslenska utanríkisráðuneytinu segir Össur Skarphéðinsson að það að Ísland sé fyrsta Evrópuríkið sem nái fríverslunarsamningi við Kína skapi íslenski atvinnulífi „einstakt forskot“.

Já ef svo er, er þá ekki ágætt að vera fullvalda um utanríkisviðskipti sín og geta gert fríverslunarsamninga upp á eigin spýtur?

Ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu þá hefði landið ekki haft tök á slíkri samningagerð. Það hefði bara setið kyrrt „í biðröðinni“ með öllum hinum. Ef Ísland gengur í Evrópusambandið þá er það um leið fast innan tollagirðinga Evrópusambandisns og sjálfstæðir fríverslunarsamningar, sem Ísland hefur gert við önnur fullvalda ríki, falla úr gildi. Og stjórn allra slíkra samningamála hyrfi frá Reykjavík til Brussel.

En Ísland hefði auðvitað ofboðsleg „áhrif“ á þau mál sem það að vísu ræður að fullu í dag. Þess vegna verður Ísland að komast „að borðinu“. Í Brussel myndu allir sitja og standa eftir því sem íslenski sendimaðurinn segði. Eins og koma mun á daginn, bara ef við „klárum viðræðurnar og fáum að sjá samninginn“.

Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað hlynntur frjálsum viðskiptum og ætti því almennt að vera hlynntur fríverslunarsamningum. Hér á hins vegar í hlut alræðisríki kommúnista, þar sem fólk býr við verulega kúgun. Hversu mikla fríverslunarsamninga vilja Íslendingar gera við slík ríki? Hefur sú umræða farið fram á Íslandi? Á Alþingi? Eða í utanríkismálanefnd Alþingis? Í fjölmiðlum kannski?

Hvar hefur sú umræða farið fram?