Helgarsprokið 14. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 104. tbl. 17. árg.

„Forsendubrestur“ er eitt áhrifamesta orð kosningabaráttunnar. „Við verðum að viðurkenna að hér varð forsendubrestur“ segja ábúðarfullir frambjóðendur. Og hver gæti svo sem verið andvígur því að ræða jafn svakalegan brest sem brak og brestir í sjálfum forsendunum eru?  

Myndin hér að neðan sýnir árlega verðbólgu á Íslandi undanfarin 30 ár en verðtrygging fjárskuldbindinga var leidd í lög árið 1979. Höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar í samræmi við verðbólgu. Sá „forsendubrestur“ sem menn vísa til í umræðunni nú er verðbólgan á árunum 2008 til 2010.

Frá óðaverðbólgu til forsendubrests.
Frá óðaverðbólgu til forsendubrests.

Þegar litið er yfir þetta tímabil má segja verðbólgan 2008 og 2009 hafi ekki átt að koma sem þruma úr heiðskíru lofti, það kom til að mynda annað en öllu minna skot í kringum aldamótin.

Það má einnig hugsa til fólksins sem keypti sér íbúð fyrir árið 1991. Ef verðbólga áranna 2008 og 2009 er kölluð forsendubrestur hvað ætli það hafi kallað sínar aðstæður í um og yfir 20% verðbólgu ár eftir ár?