Laugardagur 13. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 103. tbl. 17. árg.

Það gefur ekki fallega mynd af sér, vinstrafólkið í Bretlandi sem þessa dagana getur ekki falið hatur sitt á nýlátinni Margréti Thatcher. Tæpum tuttugu og þremur árum eftir að hún lét af völdum er hatrið jafn stækt og áður. Kampavínsflöskur eru opnaðar á götum úti, dansað er frammi fyrir sjónvarpsmyndavélum og reynt er að koma áttatíu ára gömlu lagi úr barnaleikriti, þar sem fagnað er dauða nornar, inn á vinsældalista sem spilaður verði á BBC í tæka tíð fyrir útförina. Og BBC ætlar auðvitað að veita umbeðna þjónustu. 

Sumt af því fólki, sem nú dansar skeggjað á götum, var ekki fætt þegar Margrét Thatcher lét af völdum. En dansar samt, enda veit það vel hverja það á að hata og hverja ekki. Og sjálft telur þetta fólk sig vafalaust afar umburðarlynt og mjög á móti „fordómum“.

Hatrið og heiftin á vinstrivængnum geta verið alveg óskaplega óviðkunnanleg. Menn ættu að velta fyrir sér hvernig „umræðan“ hefði orðið, ef netið og athugasemdakerfi þess hefðu verið komin í notkun á valdatíma Margrétar Thatcher. Vill einhver hugsa út í hvaða áhrif það hefði haft á þær kynslóðir ungs fólks, sem alist hefðu upp undir því orðbragði sem þá hefði verið viðhaft.

En hvernig er þetta á Íslandi? 

Í Fjölmiðlabókum Ólafs Teits Guðnasonar er margháttaður fróðleikur um íslenskt þjóðfélag á þeim árum, enda eru bækurnar stórfróðleg lesning enn í dag. Í einni þeirra, hinni löngu uppseldu Fjölmiðlum 2004, er þessi lýsing:

Áður en lengra er haldið er rétt að skjalfesta ummæli sem Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndaleikstjóri lét falla í þættinum Vikulokunum á Rás 1 þann 12. júní síðastliðinn. Eins og nafnið gefur til kynna er tilgangur þáttarins að fjalla um vikuna sem leið. Fram kom í upphafi þáttarins að Hrafnhildur var í útlöndum  hálfa vikuna, en þótti samt einhverra hluta vegna heppilegur gestur í þáttinn.

Hildur Helga Sigurðardóttir, umsjónarmaður, spurði Hrafnhildi hvernig vindarnir blésu í Bandaríkjunum, þar sem hún hafði verið.  Hrafnhildur svaraði að bragði: „Ja, ég hitti gamla kærustu í New York og við byrjuðum á því að skála fyrir því að Reagan væri dauður.“

Hrafnhildi var ekki vísað á dyr. Hildur Helga lét nægja að spyrja: „Þið hafið ekki syrgt hann?“

Hvorki umsjónarmaður þáttarins né aðrir gestir, þau Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður á Fréttablaðinu né Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur, gerðu minnstu athugasemd við ummæli Hrafnhildar. Reyndar var enginn ósammála um nokkurn skapaðan hlut í þann hálftíma eða svo sem ég heyrði af þessum  furðulega „umræðuþætti“ og vantaði þó ekki stóryrði um „verulegan lýðræðisbrest í landinu“ og fleira í þeim dúr sem Hildur Helga virðist – með vali á viðmælendum í þáttinn – vilja telja landsmönnum trú um að allir séu bara alveg hjartanlega sammála um. 

Fyrir nokkrum vikum, þegar notuð voru harkaleg orð í þætti Ingva Hrafns Jónssonar á Útvarpi Sögu, rauk fréttastofa Útvarpsins til, útvegaði sér upptöku af ummælunum og spilaði þau í fréttum.  Væntanlega til að sýna almenningi fram á hve óvægnir og miskunnarlausir  þeir ættu til að vera, sem gagnrýndu Ólaf Ragnar Grímsson. En þegar menn á hinn bóginn stæra sig af því í „Útvarpi allra landsmanna“ að hafa skálað fyrir andláti Ronalds Reagans, þá virðist það bara þykja sjálfsagt mál.