Vefþjóðviljinn 81. tbl. 17. árg.
Í dag eru fimmtíu og þrjú ár frá því Alþingi samþykkti að leggja á sérstakan skatt á andvirði seldrar vöru og veittrar þjónustu. Þessi skattur var nefndur söluskattur og var við lýði í þrjátíu ár þar til virðisaukaskattur leysti hann af hólmi.
Söluskatturinn var ákaflega umdeildur þegar hann var innleiddur. Mönnum fannst hann allt of hár, sumir sögðu að hann kynni jafnvel að verða hækkaður síðar. Aðrir töldu enga hættu á því. Þetta væri nauðsynlegt í ljósi aðstæðna.
Þegar söluskatturinn var innleiddur þá var hann 3%. Eftir síðustu hækkun virðisaukaskatts, sem velferðarstjórnin fékk í gegn, er virðisaukaskattur á Íslandi nú almennt 25,5%, sem er það hæsta í heimi.
Ríkið þenst út. Stjórnmálamenn bæta reglulega við nýjum og nýjum verkefnum og auka „réttindi“ til framlaga úr ríkissjóði, framlaga sem þarf svo að greiða fyrir með auknum sköttum. Sífellt er seilst dýpra í vasa skattgreiðandans, og alltaf í jafni réttlætis, velferðar og jöfnuðar. Tekjuskattur hækkar, virðisaukaskattur hækkar, eignaskattur er lagður á aftur og jafnvel á eignir sem engar tekjur gefa. Á þessu eina kjörtímabili vinstristjórnarinnar hafa skattar og gjöld verið hækkuð meira en hundrað sinnum.
Flestir stjórnmálaflokkanna virðast telja það allt í lagi. Mikilvægustu verkefnin nú séu að útdeila enn meira úr ríkissjóði til háværustu þrýstihópanna. Fyrir nú utan frekasta hópinn, þennan sem hefur látið eyða hálfum öðrum milljarði af skattfé í gerð stjórnarskrártillögu sem er þannig úr garði gerð að bæði íslenskir og erlendir fræðimenn hafa náð einstakri samstöðu um að hún sé óboðleg. En frekjurnar mega ekki heyra á neitt minnst nema þjösna þessu í gegn sem grundvallarlögum fyrir Íslendinga komandi kynslóða.
Fyrir kosningarnar núna í vor er það aðeins Sjálfstæðisflokkurinn sem segir eitthvað sem máli skiptir um skattalækkanir. En ef vinstriflokkarnir og fréttamenn þeirra og álitsgjafar mega ráða, þá verður lítið sem ekkert minnst á skattamál í kosningabaráttunni. Engar úttektir verða gerðar á þeim. Engar fréttaskýringar um það hvaða áhrif skattar og skattahækkanir hafa á lífskjör eða möguleika atvinnulífsins til að eflast og veita fleira fólki vinnu, eða vinnandi fólki launahækkanir.