Þriðjudagur 19. mars 2013

Vefþjóðviljinn 78. tbl. 17. árg.

Hverjir gengu á lagið þegar alda ofbeldis og skemmdarverka skall á miðborg Reykjavíkur?
Hverjir gengu á lagið þegar alda ofbeldis og skemmdarverka skall á miðborg Reykjavíkur?

Full ástæða er til að mæla sterklega með bókinni sem bættist í Bóksölu Andríkis í síðustu viku, Búsáhaldabyltingunni eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing.

Bókin er einstaklega læsileg og oft eins og spennusaga, jafnvel þótt sagt sé frá atburðum sem lesandinn taldi sig fyrirfram vita hvernig lyktaði. Og bókin er mjög gagnleg fyrir þá sem fylgjast með stjórnmálabaráttunni nú, rúmu kjörtímabili síðar.

Tvennt má nefna af mjög mörgum atriðum.

Þeir sem lesa frásagnir af heiftinni, ofstopanum og sjálfsþóttanum í þeim, sem í nafni þjóðarinnar öskruðu, mölvuðu rúður, grýttu lögreglumenn og ruddust  inn í byggingar, þeir sjá strax hversu vonlítið er að ná einhverri sátt við sömu öfl þegar þau vilja nú, enn í nafni þjóðarinnar, mölva stjórnarskrá landsins og fá nýja. Mörgum úr þessum hópi þykir það vera kostur að nær allir finnanlegir sérfræðingar séu á einu máli um galla nýju skrárinnar. 

Þeir sem lesa bókina skilja strax að ekki verður samið um slíkar stjórnarskrárbreytingar við slík öfl.

Og þeir sem lesa bókina sjá greinilega hversu ódrengilegt það var, þegar Framsóknarflokkurinn hljóp til, strax eftir óeirðir og ofbeldisverk, og bauðst til að leiða vinstristjórn til valda, og verðlauna þannig þá sem höfðu gengið fram með ofbeldi og offorsi. Framsóknarflokkurinn settist ekki einu sinni sjálfur í stjórnina, slíkt var lýðskrumið, og gáfu þannig vinstristjórninni í rauninni frítt spil.

Framsóknarmenn settu nokkur skilyrði fyrir stuðningi sínum við því að afhenda vinstrimönnum stjórnarráðið fyrir kosningar. En settu þeir skilyrði um að ekki yrði samið um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga?

Framsóknarflokkurinn hefur alls ekki verið alslæmur á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. En framganga hans í janúar 2009 sýnir hina hlið hans, sem getur verið næstum því alslæm.

„Búsáhaldabyltingin“ fæst í Bóksölu Andríkis, kostar þar aðeins 2590 krónur og heimsending innanlands er innifalin eins og alltaf í bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 900 króna sendingargjald.