Vefþjóðviljinn 77. tbl. 17. árg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins fékk þá hugmynd í ársbyrjun 2009 að best færi á því að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon stjórnuðu landinu með minnihlutastjórn undir verndarvæng Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð er faðir norrænu velferðarstjórnarinnar og helstu afreksverka hennar. Það var undir verndarvæng Sigmundar Davíðs sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra skipaði Svavar Gestsson formann samninganefndarinnar um Icesave 24. febrúar 2009.
Framsóknarflokkurinn reiddi einnig fram þá kenningu að alþjóðleg fjármálakreppa ætti upptök sín í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Lehman bræður, Northern Rock og Danske Bank hefðu verið afvelta vegna þess að eitthvað vantaði upp á í stjórnarskrá Íslands! Í kosningaauglýsingu flokksins vorið 2009 var stjórnarskrá lýðveldisins kastað í ruslakörfu og sagt að Framsóknarflokkurinn hefði „barist fyrir því að samin verði ný og framsækin stjórnarskrá af sérstöku stjórnlagaþingi.“ Með því hófst 1.500 milljóna króna skrípaleikur sem ekki sér fyrir endann á.
Síðustu vikur og dagar þingsins hafa farið í almenna upplausn og þras yfir stjórnlagaráðsgrautnum sem Sigmundur Davíð hitaði upp fyrir Jóhönnu og Steingrím.