Vefþjóðviljinn 76. tbl. 17. árg.
Framsóknarflokkurinn minntist á dögunum aldarafmælis eins af fyrri leiðtogum sínum. Á valdatíma hans var stefnu flokksins stundum lýst með orðunum „já já nei nei“ og þótti Framsóknarflokkurinn þá vera „opinn í báða enda“, eins og oft var sagt.
Nú í aðdraganda kosninga virðist ýmislegt benda til þess að Framsóknarflokkurinn hafi ekki alveg gleymt „já já nei nei“ aðferðinni.
Í síðustu viku lýsti formaður þingflokks Framsóknarflokksins því yfir á Alþingi að loforð Framsóknarflokksins gegn verðtryggingunni snerust í raun aðeins um lán sem ekki hefðu enn verið tekin. Stefna ætti að því að í framtíðinni yrði ekki eins mikið um verðtryggð ný lán og nú. Enginn hefði hins vegar lofað neinu um gildandi lán.
Jæja, það er þó fróðlegt. En svo kemur Karl Garðarsson, sem situr í öðru sæti Framsóknarflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu, og boðar „skuldaleiðréttingu“ sem verði svo dýr að til að borga hana þurfi að skattleggja hvern mann um 2% sérstaklega, í svona fimmtán ár.
En fyrst að Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að gera breytingar á gildandi verðtryggðum lánum, hvers vegna þarf Karl Garðarsson þá að hækka skatta á hvern einasta vinnandi mann um 2%? Veit það einhver, annar en maðurinn í Framsóknarhúsinu sem segir frambjóðendum að samþykkja alltaf orð síðasta ræðumanns? Fyrst þeirra sem heimta „leiðréttingu lána“, og svo þeirra sem benda á hversu óheyrilega dýrt það yrði fyrir skattgreiðendur, sem í mörgum tilfellum eru þeir sömu og eiga að fá leiðréttinguna.
Hugsanlega ættu kosningastjórar Framsóknarflokksins að rifja upp spurningu Ólafs Jóhannessonar, þegar honum þótti félagar sínir helst til ákafir í loforðum: „Hvernig er það herrar mínir? Ætlið þið aldrei að setjast aftur í stjórn?“